Það þarf að huga að mörgu þegar bjóða skal tengdaforeldrum í mat í fyrsta skiptið. Þessi athöfn er dauðans alvara og maður þarf að vera á tánum allan daginn og fram á kvöldið.

Maturinn þarf að vera gómsætur en tiltölulega hollur svo þau gangi út frá því að maður hugsi vel um heilsuna. Íbúðin þarf að vera hrein en samt ekki það hrein að þau dragi þá ályktun að maður eigi sér ekki líf. Síðast en ekki síst þarf drengurinn þeirra að vera vel til hafður.

Dagurinn er undirlagður af undirbúningi og margt sem þarf að huga að. Það þarf að fara í Bónus, telja dósirnar, taka til, kaupa falleg blóm á svalirnar – svo eitthvað sé nefnt.

Þegar svona dagur rennur upp er mikilvægt að horfast í augu við kosti sína og galla og vinna út frá þeim. Ég skal nefna dæmi. Ég er ágæt að elda þannig að ég eldaði matinn og leyfði hæfileikunum að njóta sín þar. Ég er aftur á móti hörmulegur bakari þannig að leiðin lá í IKEA þar sem ég leyfði Svíunum að heilla tengdaforeldrana upp úr skónum með gómsætri ostaköku og unaðslegri súkkulaðiköku. Rúsínan í pylsuendanum var síðan vanillusósa sem átti að hella yfir kökurnar – hana keypti ég tilbúna í fernu.

Eins og svo oft áður mætti útlit mitt afgangi. Eftir að hafa eldað, þrifið og tekið kökurnar úr pakkningunum var dyrabjöllunni hringt. Ég óð að hurðinni og uppgötvaði mér til mikillar mæðu að ég hafði alveg gleymt sjálfri mér. Ég stóð þarna í dyrunum og tengdaforeldrarnir að ganga upp stigann. Ég gat ekki gert mikið í þessu á þessari stundu – stiginn var bara 12 tröppur. Ég tók þá á móti tengdaforeldrunum með hárið út í loftið, í götóttu kósíbuxunum, með sósuna lekandi niður eftir bolnum og málningin á andlitinu var síðan um morguninn.

Ég tók því fleiri áfengisflöskur úr skápnum og hlammaði á borðið og vonaðist til þess að þau myndu ekki taka eftir útganginum á mér heldur myndi íbúðin, maturinn, kökurnar og kærastinn tala sínu máli.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts