Ég tók Íslendingapakkann á þetta um páskana og skellti mér til Tenerife með stórfjölskyldunni, eða þannig, elsti erfðaprinsinn varð eftir heima, í enn eitt skiptið. Sorrý Garðar, við ræðum þetta yfir kaffibolla síðar darlingur.

Ég hef töluverða reynslu af sólarlandaferðum og hef verið reglulegur gestur á sólarströndum frá því ég var með snuð og bleyju. Það er því fátt sem kemur á óvart á þessum ferðalögum. Ég hef komið á flestar Spánarstrendur og dvalið ófá skipti á Gran Kanarí sem barn en þetta er í fyrsta skipti sem að ég heimsæki hina margrómuðu Tenerife.

Mörg þúsund Íslendingar fengu sömu hugmynd og við að tana á Tene yfir páskana og því var eyjan stútfull af skjannahvítum samlöndum. En Íslendingar voru ekki þeir einu sem fengu þessa snjöllu hugdettu því hvert sem komið var á eyjuna voru sjálflýsandi Norðurlandabúar jafnstaðráðnir og við að ná í smá sól og gott D-vítamín í kroppinn.

Í hvert sinn sem ég fer sunnar á hnöttinn furða ég mig á því hvernig Íslendingum tekst yfirhöfuð að lifa af hér við heimskautsbaug. Hitastigið á Kanaríeyjum er viðráðanlegt og jafnvel helst til of kalt fyrir minn smekk, ég vil helst hafa 30 gráðu meðalhita, en það var óneitanlega notalegt að hlaupa um eyjuna án þess að verða frosin í andliti og með kal á fingrum.

Hvernig stendur á því að maður lætur ítrekað gabba sig til að búa hér áfram. Hér er vissulega margt gott, neita því ekki, en …

Ég viðurkenni það fúslega að ég var farin að gæla við þá hugmynd að leigja mér íbúð, redda mér vinnu og skrá börnin í skóla. En þá mundi ég eftir Garðari mínum, þeim elsta sem verður alltaf útundan og kemst aldrei með til útlanda um páska, auðvitað myndi ég sakna hans. Þannig að ég er með lausn á þessu, ég finn bara handboltalið fyrir hann á Tenerife þá getur hann alltaf verið með okkur hinum í sólinni.

Ég klappaði ekki með hinum farþegunum þegar flugvélin hlammaði sér á flugbrautina hér heima, ég var upptekin við að skipuleggja flutninga í huganum.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts