Það er skemmtilegt að hugsa til þess að í maí á síðasta ári gekk ég inn á skrifstofu Séð og Heyrt í fyrsta skipti. Þar mætti mér hávaxinn maður með nikótínstaut í munnvikinu og sagði: „Sæll, ert þú þessi Garðar?“ Það var Eiríkur Jónsson, ég hafði heyrt nafnið áður en vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast.

Til að gera langa sögu stutta þá smullum við saman eins og flís við rass, þrátt fyrir að hann hafi skilað bréfaklemmunni til mín eftir fyrstu greinina sem ég skrifaði og sagt að hún væri það eina nothæfa við þessa grein.

Eiríkur kenndi mér margt, ekki bara hvernig fjölmiðlar virka heldur einnig á lífið. Hann er með öðruvísi sýn á lífið en flestir aðrir, sýn sem ég tengi mikið við.

Síðan kom 2016, Eiríkur hætti sem ritstjóri og mamma mín tók við. Það eru margir sem spyrja mig hvort það sé ekki erfitt að hafa mömmu sína sem yfirmann en ég er búinn að vera í kringum hana nánast upp á hvern einasta dag í 24 ár þannig að það er svo sem ekkert nýtt.

Árið 2016 kveður okkur fljótlega og margir sem eflaust fagna því. Það er orðið að tískubylgju að hata árið 2016 en fyrir mér er 2016 besta ár sem ég hef upplifað. Vissulega misstum við menn á borð við David Bowie, Prince og fleiri. ISIS urðu enn sýnilegri og Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna. Það er hins vegar eitthvað sem ég kippi mér voða lítið upp við enda hefur það í raun lítil áhrif á mig. Lögin hans Bowie eru enn til staðar og ISIS og Donald Trump eru lítið að spá í litla Ísland.

Það sem hins vegar stendur upp úr hjá mér árinu er að ég fann ástina, ég mæli með því að allir geri það því hún er snilld!

Þann 8. mars fór ég klippingu og það er næstbesta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég heillaðist samstundis af stúlkunni sem klippti mig. Ég bara varð að bjóða þessari draumaDís minni út og það er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Nú þarf ég að hugsa um einhvern annan en mig, ég þarf að passa upp á að ástinni minni líði vel, ég þurfti að hætta að hugsa bara um sjálfan mig og ég elska það. Það er enginn jafnheppinn og ég.

Þessu fylgdi líka ný fjölskylda, nýir vinir, eins og hún Dóra, og í raun og veru nýtt bæjarfélag. Ég er þakklátur fyrir það hversu vel mér hefur verið tekið hjá tengdafjölskyldu minni, þakklátur fyrir það að fá að eyða öllum dögum með stúlkunni sem ég elska en fyrst og fremst er ég þakklátur sjálfum mér fyrir að hafa tekið stökkið og boðið stúlkunni sem klippti mig út að borða.

Árið 2016 kenndi mér margt. Það ár kenndi mér að lífið er magnað. Það er ekki alltaf dans á rósum og stundum koma hraðahindranir sem maður þarf að komast yfir en nú er ég ekki einn í þeirri torfæruferð því ég hef draumaDísina mína mér við hlið og gæti ekki beðið um meira.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts