Hilmir Kolbeins (39) fer fyrir búningagenginu The 501st Legion:

Star Wars-nördar eru sjálfsagt einn öflugasti og samheldnasti hópurinn sem sögur fara af. Stjörnustríð var í raun Bítlaæði þeirra sem eru í kringum fertugt í dag og þeir sem heilluðust sem börn halda dellunni áfram á fullorðinsárum. Þeir allra hörðustu eru í alheimssamtökunum 501st Legion og spóka sig í búningum sem eru nákvæmar eftirlíkingar vondu kallanna í Stjörnustríðsmyndunum. Hilmir Kolbeins er foringi liðsins á Íslandi og á að sjálfsögðu forláta Svarthöfðabúning sem metinn er á rúma hálfa milljón króna.

DÝR :Hilmir með Svarthöfðahjálminn sem fylgir búningnum hans.

DÝR :Hilmir með Svarthöfðahjálminn sem fylgir búningnum hans.

Hilmir hélt fyrirlestur um félagsskapinn og búningana í versluninni Nexus nýlega og þangað hópuðust áhugasamir Star Wars-nördar. „The 501st Legion er með stöðvar út um allan heim; mjög víða í Evrópu, eitthvað í Arabalöndunum, í Suður-Afríku, eru mjög öflugir í Singapúr og auðvitað í Bandaríkjunum og Kanada,“ segir Hilmir sem stofnaði Íslandsdeildina.

„Ég er búinn að vera í þessu síðan 2002 og var bara fyrst einn að dunda mér. Tommi kom svo inn ekki alls fyrir löngu og þá fórum við að gera meira.“ Þótt fólkið í 501. herdeildinni gangi aðeins í búningum illmennanna í Star Wars-myndunum eru þau bestu skinn og leggja ekki síst áherslu á að gleðja börn og þá helst langveik börn. „Við höfum heimsótt Barnaspítalann og gert eitt og annað.“

Mikið er lagt upp úr að búningarnir séu nákvæmar eftirlíkingar og það fæst ekki hvað sem er samþykkt hjá 501. Sumir kaupa búningana tilbúna dýrum dómum en aðrir kaupa þá í hlutum og dunda sér við að setja þá saman og föndra við þá þar til þeir eru nánast fullkomnir.

„Það er heilmikil menning í kringum þetta og ég er kominn með vinanet út um allan heim,“ segir Hilmir og bætir við að Star Wars bjargi manni vissulega frá því að fullorðnast. Hann segist ekki vita hversu margir á Íslandi eigi almennilega búninga en hann finnur fyrir miklum áhuga. Með þessari kynningu erum við að reyna að vekja áhuga fólks og fá það til að vera með. Þetta er heilmikill og góður félagsskapur.“

STORMSVEIT: Stormsveitarmenn hins illa keisaraveldis eru dýrkaðir og dáðir enda búningar þeirra æðislegir.

STORMSVEIT: Stormsveitarmenn hins illa keisaraveldis eru dýrkaðir og dáðir enda búningar þeirra æðislegir.

„Það eru margir sem hafa áhuga en þetta hefur ekki verið mjög sýnilegt,“ segir Tómas, félagi Hilmis. „Fólk er líka feimið. Þegar ég var að byrja í þessu var ég ekkert mikið að tala um það. Maður hafði þetta bara út af fyrir sig,“ bætir Hilmir við. Í seinni tíð hefur hann hins vegar áttað sig á að þetta er tómstundagaman sem maður ætti að vera stoltur af frekar en hitt og boðar nú fagnaðarerindið.

Eins og við má búast er erkiskúrkurinn Svarthöfði að sjálfsögðu aðalgæinn enda búningur hans einn sá flottasti í kvikmyndasögunni. Hilmir á magnaðan Svarthöfðabúning sem hefur fengið toppeinkunn fyrir nákvæmni. „Hann hefur til dæmis verið lánaður í auglýsingar og ég fæ stundum fyrirspurnir frá fólki sem vill fá hann lánaðan í hrekkjavökupartí eða eitthvað álíka. Flestir bakka þó yfirleitt þegar ég bendi þeim á að ef eitthvað komi fyrir búninginn eða hann skemmist sé um að ræða tjón upp á 500-600 þúsund krónur.“

 

Related Posts