Þokkadísin Magdalena Dubik (27):

Magdalena Dubik, fegurðardrottning og fiðluleikari, eignaðist gullfallega dóttur fyrir sjö vikum. Magdalena starfar sem sölustjóri hjá Andrá ehf og segir móðurhlutverkið krefjandi en jafnframt æðislegt.

Krefjandi kraftaverk „Þetta er æðislegt en getur verið mjög erfitt á köflum. Lífið umbreytist algjörlega, það er sífellt verið að undirbúa mann fyrir það en enginn getur undirbúið mann alveg fyrir þessa breytingu,“ segir hin nýbakaða móðir, Magdalena Dubik.
Stúlkan hefur ekki enn verið skírð en verið er að bíða eftir foreldrum Magdalenu sem eru stödd erlendis. „Við ákváðum nafnið strax eftir 20 vikna sónarinn. Fram til þess var ég alveg viss um að ég væri með strák. Þegar kom svo í ljós að ég var ófrísk að stúlku þurfum við að byrja nafnaleitina aftur. Þegar hún síðan fæddist passaði nafnið sem við höfðum valið vel við hana.
Grætur líka
Magdalena viðurkennir að margt hafi verið erfiðara en hún bjóst við þegar kemur að því að eiga nýfætt barn. „Hún sefur stundum illa og þegar þriðja svefnlausa nóttin í röð átti sér stað var ég byrjuð að gráta með henni. Það skiptast á skin og skúrir, þetta er krefjandi en jafnframt æðislegt.“
Magdalena er í sambandi við Einar Þór Halldórsson sem hefur staðið sig vel í föðurhlutverkinu. „Þegar koma stundir þar sem hún er óvær þá er gott að eiga góðan maka og við skiptumst á um að vaka á næturvöktunum. Hann er ofsalega duglegur með hana og frábær faðir.“
Fiðla og hárþurrka
Þegar dóttir Magdalenu er óvær eru aðeins tveir hlutir sem virka til að róa hana niður. „Það kom í ljós eftir nokkra daga að fiðlan og hárþurrkan virka best. Það passar vel því ég spilaði mikið á fiðlu þegar ég var ófrísk að henni og fannst voðalega þægilegt að þurrka á mér hárið eftir sturtu.“
Ófrísk eftir köfunarferð
Þetta er fyrsta barn Magdalenu og segir hún tímasetninguna vera góða. „Ég hefði ekki viljað eignast barn fyrr. Ég er akkúrat á réttum stað, búin að ferðast mikið og upplifa margt. Við fórum í stóra köfunarferð á síðasta ári og ég varð ólétt stuttu eftir hana. Ég er búin að fá að ferðast og gera það sem ég vildi gera sem er fínt því núna skiptir einhver meira máli heldur en maður sjálfur. Í dag er ekki hlaupið að því að fara í stóra köfunarferð,“ segir Magdalena og brosir.
Afi, amma og langamma
Móðir Magdalenu er stórsöngkonan Alina Dubik sem hefur getið sér gott orð sem óperusöngkona og er jafnframt söngkennari í Reykjavík. „Hún elskar þegar mamma syngur fyrir hana. Síðan er langamma hennar, amma Einars, stórsöngkonan Ingveldur Hjaltested. Mamma er búin að ákveða að taka hana í söngtíma og pabbi, sem er fiðluleikari, ætlar að taka hana í fiðlutíma. Þetta verður eitthvað skrautlegt,“ segir Magdalena hlæjandi.

Magdalena Dubik

Í SKÝJUNUM: Magdalena með nýfædda dóttur sína.

Þetta og miklu meira í Séð og Heyrt!

Related Posts