Sveinn Sigurjónsson, betur þekktur sem Svenni, er þekkt kennileiti á götum borgarinnar með sitt myndarlega gráleita alskegg.  Sagt er að ferðamenn borgi Svenna með evruseðli fyrir að fá að taka mynd af honum. Svenni fer með lítið hlutverk í myndinni Vonarstræti. Hann segir að sér, og Begga vini sínum, hafi verið rænt í myndina. „Við vorum bara sjanghæjaðir og keyrðir á bar þar sem tökur fóru fram“, segir Svenni.

Heiðskíran sumardag sátu Svenni og Beggi í rólegheitum á bekk við Austurvöll og drukku sinn daglega bjór. Kemur þá aðvífandi maður sem Svenni kannaðist lítillega við. Hann bendir á þá og skipar þeim að koma með sér. Þeir eigi að leika í kvikmynd. Það næsta sem Svenni veit er að búið er að troða honum og Begga inn í bíl og síðan er keyrt á Obladí á Frakkastíg. Á leiðinni er útskýrt að í myndinni eigi þeir eigi að vera gestir á barnum og ekki segja aukatekið orð. Hinsvegar eigi þeir að látast hlusta með athygli á það sem aðalpersónan segir.

FRÁBÆR: Myndin Vonarstræti hefur fengið mjög góða dóma.

FRÁBÆR: Myndin Vonarstræti hefur fengið mjög góða dóma.

Svenni segir að þetta hafi verið lítið mál enda fengu þeir bæði bjór og snaps á borðið sér að kostnaðarlausu meðan á tökum stóð. Og það sem betra var þegar tökunum lauk var farið með Svenna og  Begga í næsta hraðbanka og þeim borgaðar 3.000 krónur á haus fyrir viðvikið. Þeir gátu því með góðri samvisku farið aftur niður á Austurvöll og tekið til við fyrri iðju í sumarblíðunni.

Svenni hefur enn ekki séð myndina Vonarstræti og veit því ekki hvernig hann tekur sig út á tjaldinu í henni. En hann á góðar minningar frá tökustað. „Það urðu svo miklar tafir á tökunum þarna á barnum að þeir þurftu stöðugt að skerpa á glösunum okkar Begga,“ segir Svenni.

Related Posts