Hjónin Íris Edda (51) og Viðar Arnarson (53) gefa út tónlist af ástríðu:

Íris Edda Jónsdóttir, heilbrigðisritari á Landspítalanum, og eiginmaður hennar, Viðar Arnarson pípulagningamaður, hafa gefið út hljómdiskinn Daglegt líf en þar syngur Íris Edda eigin lög við texta Viðars. Þau gefa hann út sjálf af ástríðu og kjósa frekar að setja peninga í tónlistina en utanlandsferðir.

 

Samlynd hjón Íris Edda Jónsdóttir komst að því fyrir sex árum að hún gæti samið lög og hefur nú sent frá sér hljómdiskinn Daglegt líf þar sem hún syngur fjórtán lög, þar af þrettán sem hún samdi sjálf og Viðar, eiginmaður hennar, lagði til níu texta.

ALLTAF MEÐ GÍTARINN: Íris Edda semur öll sín lög á gítarinn og afköstin eru gríðarleg.

Drottning næturinnar

„Ég hafði áður gefið út eina plötu þar sem ég söng lög eftir aðra, Hörð Torfa, Halla Reynis og fleiri. Þegar við fórum að huga að næstu plötu var Viðar búinn að tala við nokkra höfunda en enginn þeirra átti fyrir okkur lög eða þeir voru mjög uppteknir. Þá sagði Viðar bara við mig að ég ætti að semja lögin sjálf og rétti mér texta eftir sig. Ég spurði hann hvort hann væri bilaður. Ég gæti það ekki. En hann sagði mér að ég yrði að prufa til þess að komast að því og fyrsta lagið kom bara á fimm mínútum. Það var lagið Drottning næturinnar sem ég samdi á gítar og síðan þá hef ég samið öll mín lög á gítar.“

 

Múrinn rofinn

Þegar tónsmíðamúrinn var rofinn hefur Íris Edda verið óstöðvandi og hún segist tilbúin með efni í þrjá diska til viðbótar. Hjónin eru þegar farin að huga að næstu plötu en segja má að Viðar sé í hlutverki útgefanda, sér um fjármálin og dreifinguna. „Hann þeytist út um allt með diska á milli þess sem hann vinnur í pípulögnunum.“

ÁST Á KJALARNESI: Íris Edda og Viðar eru í tónlistinni af ástríðu og eru samstíga í þessu áhugamáli sem kemur í stað utanlandsferða.

Ritstífla píparans

Íris Edda segir þau hjónin ekki orðin rík af tónlistinni enda kannski ekki lagt upp með það. Ástríðan drífi þau áfram. „Verður einhver ríkur af þessu ef hann heitir ekki Björgvin, Páll Óskar eða Bubbi? Við erum samt bara rétt að byrja. Okkur finnst þetta skemmtilegt og gerum þetta af ástríðu. Við gerum þetta frekar en að fara til útlanda.“

Íris Edda segir að í miðjum klíðum hafi píparinn fengið ritstíflu og þá leitaði hún að ljóðum til að semja lög við á Ljóð.is. Þar komst hún í kynni við Stefán Finnsson heilsugæslulækni og Dagbjart Sigursteinsson sem hafa lagt henni til texta.

Sungið um látna

Íris Edda syngur um lífið og tilveruna og þar kemur dauðinn meðal annars við sögu og tvö laganna á plötunni eru helguð minningu látinna. Annað lagið, Ólöf, orti kunningi Viðars um vinkonu móður sinnar og þegar Íris Edda bað hann um leyfi til að semja lag við það kom á daginn að hún hafði verið kaupakona í Reykhólasveit hjá konunni sem lagið er um. „Þannig að það er skemmtileg saga á bak við þetta.“

Sigurvegari

Íris Edda tók þátt í Sönglagakeppni Vestfjarða 2010 og hafði sigur í Ormsteiti á Egilsstöðum 2011 og er til í enn frekari landvinninga.

 

MYNDIR: SÉÐ OG HEYRT

Related Posts