Sindri Ólafsson (33) ber sögusagnir til baka:

Þjóð veit ef þrír vita. Það sem þjóðin veit er stundum haft eftir henni Gróu gömlu á Leiti en sögur hennar eru oftar en ekki meira í ætt við skáldskap en sönnuð vísindi. Sú saga hefur flogið á milli manna síðustu vikur að þingmaðurinn Vilhjálmur Bjarnason ætti launson í Vestmannaeyjum. En ekki er allt satt sem maður heyrir hvíslað í heita pottinum.

Ótrúlegt ,,Ég hef ekki hugmynd um það hvernig þessi saga fór af stað,” segir Sindri Ólafsson, Vestmannaeyingur og starfsmaður Ribsafari, aðspurður um sögusagnir þess efnis að Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, væri faðir hans.

,,Einhverra hluta vegna fór þessi saga af stað, hún spannst þannig að ég hefði komist að þessu eftir að hafa greinst með erfðasjúkdóm og þá hafi sannleikurinn komið í ljós. Vilhjálmur þekkir foreldra mína og ég kannast við hann. Ég hitti hann um daginn og tók mynd af okkur og setti hana sem prófílmynd á Facebook einfaldlega til að sýna fáránleikann í sögunni og jú auðvitað til að stríða sögusmettunum.”

Sindri Ólafsson er kvæntur maður og tveggja barna faðir, Eyjapeyi í húð og hár og hefur um margt annað að hugsa en sögusagnir um meint faðerni sitt. Þjóðhátíð er fram undan og því í mörgu að snúast hjá Eyjamönnum.

,,Við Villi ræddum þetta þegar að við hittumst hér fyrir tilviljun um daginn, hann er góður gæi og við hlógum að þessari vitleysu, en hvorugur okkar skilur hvernig þessi saga fór á flug. Þetta er hreinlega bara fyndið, en nei, Villi er ekki pabbi minn,” segir Sindri Ólafsson og biður fyrir góðar kveðjur til Gróu á Leiti og saumaklúbbs hennar.

vilhjálamur bjarnason

EKKI PABBI MINN: ,,Villi er góður gæi, en hann er ekki pabbi minn,” segir Sindri Ólafsson sem hlær að kjaftasögunni. Þeir félagarnir smelltu í mynd í tilefni af sögusögnunum enda mikilr húmoristar.

Related Posts