Ég finn hvernig EM-tryllingurinn magnast með þjóðinni en samt nokkuð hægar en ég gerði ráð fyrir. Kannski að landinn hafi loksins lært að stilla væntingum sínum um stórvirki landans á erlendri grundu í hóf eftir hamfarir okkar í Söngvakeppninni síðustu ár. En mér finnst það í góðu lagi, líka það að Bubbi er sextugur. Ég er nú samt ekki alveg viss um að það sé rétt, maður á hans aldri, skrýtið en skemmtilegt.

Allir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára eiga sitt uppáhaldslag með Bubba, líka þeir sem þykjast ekki þola hann. Stál og hnífur er þjóðsöngurinn í Brekkunni, það vita allir.

Íslenski sjómaðurinn líf hans, harmur og sigrar hafa verið yrkisefni Bubba frá því hann kvað sér fyrst hljóðs og að mörgu leyti hans sérkenni. Hinn harðgerði sjómaður sem býður hafinu birginn og mokar afla úr sjó er táknmynd hins íslenska karlmanns. Það er ekki spaugað með þá Suðurnesjamenn í Grindavík, enda sækja þeir sjóinn fast og kunna að gleðjast á sjómannadaginn eins og bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti ber glöggt merki um.

Nútímahetjur ríða ekki þungbrynjaðar um héruð, þær vinna sína sigra í reimuðum skóm með viljann að vopni. Innri víkingur Íslendinga má glöggt sjá brjótast fram í EM-kallinum sem mun fylgja Séð og Heyrt á meðan Evrópukepnin í fótbolta stendur yfir. Öskubuskuævintýri íslenska karlalandsliðsins er nánast of gott til að vera satt, líkt og ævintýri íslenskra bankamanna á sínum tíma.

Endurkoma eins helsta aðalleikara í góðærinu á sviði samkvæmislífsins í Reykjavík hefur vakið athygli. Vonandi fær öskubuskuævintýri fótboltalandsliðsins farsælli endi en hrunið, við stefnum að því að lifa hamingjusöm til æviloka.

Sumarið er tíminn, njótum þess á meðan það varir. Íslendingar þekkja það best hversu dýrmætt það er. Látum sólina ekki fara til spillis, njótum og dveljum í gleðinni því það gerir lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt í hverri viku. 

Já, og áfram Ísland

ÁstaII

ÁSTA HRAFNHILDUR GARÐARSDÓTTIR

Related Posts