Margir eru farnir að skipuleggja sumarfríið sitt með tilliti til Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem stendur frá miðjum júní fram í miðjan júlí. Það er svo sem hægt að horfa á mótið allt í sófanum heima á Íslandi en hitt er meira freistandi: Koma sér á suðlægar slóðir og fylgjast með á hverfiskrá innfæddra í einhverjum smábæ og þá kannski helst á Spáni.

Þeir sem reynt hafa gleyma aldrei. Að rölta út á torgið í miðju bæjarsins, finna sér krá þar sem sjónvarpstækinu hefur verið snúið í glugga út, móti torginu, tryggja sér sæti, panta hressingu og láta svo tvisvar sinnum 45 mínútur líða líkt og í algleymi með kærkominni hvíld í hálfleik. Síðdegis alla daga og jafnvel á kvöldin líka.

Á morgnana og fram eftir degi má nýta tímann til sólbaða, sjósunds og almenns undirbúnings fyrir átök seinni hluta dagsins þegar boltinn fer á fullt í heimsklassa með tilheyrandi braki.

Almenningur á suðurslóðum tekur knattspyrnu alvarlega og fylgist með samkvæmt því. Það er hrópað og kallað, leikmenn ávíttir, dómaranum bölvað og línuverðirnir fá sitt. Svo ekki sé minnst á þjálfarana. Þetta er algjört bíó.

Þetta á eitthvað skylt við suðræna sælu að sitja svona utandyra innan um óbreyttan almúgann og fylgjast með fótbolta í hæsta gæðaflokki. Svo fara bara allir heim að sofa til að geta mætt úthvíldir í næsta leik sólarhring seinna. Ekki flókið.

Veitingastaðir í Reykjavík reyna svo sannarlega að endurskapa þessa stemningu með beinum útsendingum frá kappleikjum en þeir ná þessu aldrei alveg. Það vantar friðsæla bæjartorgið þar sem litla sjónvarpstækinu er snúið út á torg í kvöldkyrrðinni og allt verður vitlaust þegar leikurinn byrjar.

Krít, Portúgal eða Spánn? Skiptir ekki öllu máli. Það má alltaf finna smábæ með lítilli krá þar sem fótboltinn verður á fullu frá miðjum júní og fram í júlí. Svona sumarfrí stendur ekki til boða nema áeir’kur j—nssonfjögurra ára fresti og við ættum öll að fara.

Þannig gerum við lífið skemmtilegra.

Eiríkur Jónsson

Related Posts