Súkkulaði er eitt af undrum náttúrunnar sem gefa bragðlaukunum líf og lífinu lit. Ég hef ávallt verið mikill súkkulaðiaðdáandi og nýt þess að borða gómsætt súkkulaði. En súkkulaði er ekki bara súkkulaði. Það eru einhverjir töfrar í súkkulaðinu sem kalla fram þessa mögnuðu gleðitilfinningu. Það er staðreynd að dökkt súkkulaði er auðugt af andoxunarefnum sem eru holl og góð fyrir líkamann. Ég á ávallt til 70% súkkulaði í súkkulaðiskápnum mínum, það er nauðsynlegt fyrir líkama og sál og auk þess sem það er gott og hollt örvandi efni. Það er nautn að borða ljúffengt súkkulaði. Það er ekki bara súkkulaðið eins og það kemur fyrir óunnið heldur er líka mjög mikilvægt að súkkulaði sé fallegt fyrir augað. Fólk byrjar að njóta með auganu og stundum er sagt að leiðin að hjarta konu sé í gegnum ómótstæðilegt súkkulaði.

Ég er sannfærð um að fæstir vita hversu flókin framleiðslan á súkkulaði er í raun. Súkkulaði er gert úr kakóbaunum sem vaxa í fræpokum á kakótrénu, theobroma cacao, en gríska orðið theobroma þýðir fæða guðanna. Kakóbaunirnar eru þurrkaðar í miklu magni og svo þarf að handtína þær bestu úr. Baunirnar eru ristaðar vel en varlega því að í þeim kemur bragðið af súkkulaðinu. Skelin er fjarlægð þegar búið er að rista baunirnar og kakónibburnar sem eftir sitja eru settar í mölun og blöndun. Síðan er hrásykri og smávegis af kakósmjöri blandað saman við og ef um mjólkursúkkulaði er að ræða þá er mjólkurdufti einnig bætt við. Þessu er blandað saman í nokkra daga, eða í 72 klukkustundir, en ferlið tekur í heildina um 5 daga. Hugsið ykkur nostrið.

Gaman er líka að nefna það að það er vísindalega sannað að súkkulaði inniheldur fleiri efni sem hafa áhrif á líkamann, eins og ástarlyfið tryptófan en það er amínósýra sem er notuð í framleiðslu á taugaboðefninu serótónín en í háum styrk getur það kallað fram gleðitilfinningu. Annað efni í súkkulaði, fenýletýlamín, getur örvað gleðistöðvar í heilanum og aukið tilfinningar á borð við aðlöðun og kynferðislega spennu. Það er því ekki skrýtið að að leiðin að hjarta konu sé í gegnum súkkulaði.

champagne-and-chocolate

Ég játa það fúslega að súkkulaði og bananar eru það sem ég get sjaldan neitað mér um þegar ég ætla að njóta. Til dæmis þegar ég baka pönnukökur er ávallt boðið upp á Nutella ofan á eða brætt 70% súkkulaði og þegar grilla á banana fylgir gómsætt súkkulaðiplata með. Heitt súkkulaði á köldum vetrardegi er hrein dásemd og þegar ég vil gera vel við mig og eiginmann minn þá er opnað ískalt kampavín og haft eðalkonfekt við hönd. Það er engin ástæða til að neita sér um þessa ómótstæðilegu fæðu guðanna.

 

Related Posts