Nina Margrét, MIAMI, borgin mínNína Margrét Rolfsdóttir bjó í Miami í tvö ár. Hún segir borgina mikla bílaborg en inn á milli séu fallegir garðar, skemmtilegar götur og auðvitað South Beach sem enginn má sleppa að kíkja á. Hún deilir með okkur uppáhaldsstöðunum sínum.

 

Casa Larios – Miami er eins konar suðupottur af ólíkum menningarheimum og er stundum kölluð höfuðborg Suður-Ameríku enda stórt hlutfall íbúa þaðan. Það endurspeglast í matarmenningunni og staðurinn Casa Larios er kúbverskur veitingastaður. Þeir eru með útikaffibar þar sem hægt er að grípa sér einn þrælsterkan og sykraðan cortaditos – kúbverskan espressóbolla sem er algjörlega ávanabindandi!

 

Coconut Grove – Bæjarhluti þar sem eru litlar göngugötur með verslunum og veitingastöðum. Það er gaman að þræða búðirnar og kíkja svo á Roof Top-barinn á Sonesta-hótelinu. Þar er útsýni yfir hafnarsvæðið og sjá má hundruð skúta og húsabyggð á miðju hafi. Húsin standa stök á stöplum og engin leið að komast þangað nema á báti!

 

University of Miami Campus-svæðið – Miami er algjör bílaborg og erfitt að ferðast um með almenningssamgöngutækjum. Af því leiðir að þar er mikið af steinsteypu en inn á milli fallegir garðar. Campusinn hjá UM er einn sá fallegasti og yndislegt að rölta þar um, sjá háskólalífið og fá sér Starbucks-kaffi með útsýni yfir vatnið þar sem krókódílar mæta reglulega, starfsmönnum skólans til ama. Nú eða horfa á Amazon-páfagauksparið sem er búið að gera sig heimakomið á einu húsþakinu og flýgur reglulega yfir svæðið.

 

Hverfið mitt, Coral Gables – Ég bý í suðurhluta Miami þar sem húsin berjast við gróðurinn um pláss. Það er æðislegt að skoða húsin og garðana og keyra göturnar þar sem trén ná oft að teygja sig saman og mynda þak yfir. Þar eru líka reglulega bændamarkaðir. Þar er allt sem hugurinn girnist, heimatilbúið guacamole og ceviche að ógleymdu ketMIAMItle corn, sem er popp með salti og sykri og alveg hrikalega gott.

 

Fairchild Tropical Botanic Garden – Svakalega fallegur garður með ótrúlegu úrvali af gróðri. Fjöldi tegunda af pálmatrjám og öðrum exótískum plöntum sem gaman er að skoða. Hér er hin klassíska jólarós tveggja metra hátt tré! Í garðinum er stórt hús og er hægt að ganga í gegnum svæði þar sem hundruð stórra og litríkra fiðrilda flögra um og reyna að setjast á þig.

 

South Beach – Það kemur enginn til Miami án þess að fara á South Beach. Rölta Ocean Drive þar sem öll húsin eru skemmtilega litrík og falleg í Art Deco-stíl. Á götunni eru endalausar raðir af veitingastöðum sem reyna að lokka mann inn og ekki verra að falla fyrir freistingunni og fá sér einn Bulldog eins og þeir kalla frosnu risakokteilana sína. Verðið reyndar svívirðilegt en þeir bæta það upp með því að gefa þér annan til að taka með þér í plastmáli sem gaman er að sötrar á meðan maður steikir sig á gullfallegri ströndinni með útsýni yfir fagurbláan sjóinn.

 

Bayfront Park – Hér er allt til alls, en garðurinn er í miðbæ Miami og stendur við höfnina. Hægt er að fylgjast með skemmtiferðaskipunum koma og fara eða versla í útimollinu. Þar má ganga um með kokteila milli búða. American Airlines Arena, sem er heimavöllur Miami Heats í NBA, er staðsettur þarna og reglulega eru stórir tónleikar og aðrir viðburðir þar. Einnig er nýopnað listasafn, Perez Art Museum, sem er gríðarlega fallegt hús en uppáhaldsstaðurinn minn er útileikhúsið. Þar sá ég Sigur Rós spila síðasta haust. Mögnuð upplifun undir berum himni.

 

Related Posts