Smutty Smiff (55) selur Lennon og Bowie hæstbjóðendum:

 

GÓÐUR GÆI: Smutty Smiff hefur leitað leiða til þess að styðja Frosta Jay Freeman, sjö ára gamlan skólabróður sonar síns, í erfiðum veikindum. Niðurstaðan varð styrktartónleikar og uppboð á fágætum ljósmyndum sem heimsþekktir ljósmyndarar hafa tekið af þekktustu poppstjörnum síðari tíma.

GÓÐUR GÆI: Smutty Smiff hefur leitað leiða til þess að styðja Frosta Jay Freeman, sjö ára gamlan skólabróður sonar síns, í erfiðum veikindum. Niðurstaðan varð styrktartónleikar og uppboð á fágætum ljósmyndum sem heimsþekktir ljósmyndarar hafa tekið af þekktustu poppstjörnum síðari tíma.

Eilífðarrokkarinn, plötusnúðurinn og útvarpsmaðurinn Smutty Smiff hefur lifað og hrærst í rokkinu og rólinu í Bandaríkjunum og Bretlandi áratugum saman. Hann nýtir sér nú sambönd sín í rokkheiminum, heima og erlendis, til þess að styrkja langveikan skólafélaga sonar síns, Frosta Jay Freeman. Bob Gruen, hirðljósmyndari John Lennons, lagði Smiff til ljósmyndir að verðmæti 10.000 dollara sem hann ætlar að selja hæstbjóðendum.

Góður Rokkabillístuðboltinn Smutty Smiff er með hjartað á réttum stað og notar nú sambönd sín í rokkheiminum til þess að safna fé til styrktar Frosta Jay Freeman, sjö ára gömlum langveikum skólafélaga sonar hans. Í fyrravor greindist Frosti með sjaldgæfan taugasjúkdóm sem herjar á tauga- og ónæmiskerfið. Hann er einungis þriðji Íslendingurinn sem greinist með sjúkdóminn.

Smiff blæs til fjölskylduvænna styrktartónleika í Háskólabíói á sunnudaginn og auk þess ætlar hann að vera með uppboð á forláta ljósmyndum af þekktum popp- og rokkstjörnum, árituðum af viðkomandi. Tilgangurinn er að safna fé til þess að gera daglegt líf Frosta bærilegra.

„Tveir af þekktustu rokkljósmyndurum Bandaríkjanna, Bob Gruen og Mick Rock, eru bestu vinir mínir. Bob var einkaljósmyndari John Lennons árum saman og hann sendi mér áritaða mynd af Lennon sem Hamborgarabúllan keypti um leið. Myndin var varla komin til landsins þegar hún var seld.“
Gruen hefur, auk Lennons og Yoko Ono, myndað Tinu Turner, The Rolling Stones, Led Zeppelin, Elton John og Kiss. Þá vaktaði hann nýbylgjuna og pönkið í gegnum linsuna og myndaði Patti Smith, Clash, Sex Pistols, Ramones og Blondie. Ein mynda hans af Zeppelin er meðal þeirra mynda sem Smiff er að selja.

„Mér datt í hug að spyrja þá hvort þeir gætu sent mér svona eins og eina mynd hvor og þeir vildu báðir fyrir alla muni leggja Frosta lið. Bob sendi mér myndir sem samanlagt eru verðmetnar á 10.000 dollara.“

Mick Rock var á tímabili einkaljósmyndari David Bowies og tók þekktar myndir af honum á Ziggy Stardust-tímabilinu. Hann hefur verið kallaður „maðurinn sem festi áttunda áratuginn á filmu“. Hann hefur myndað ekki ómerkari bönd og tónlistarfólk en Queen, Lou Reed, Iggy Pop, The Sex Pistols, The Ramones, Joan Jett, Talking Heads, Roxy Music, Mötley Crüe og Blondie.
Rokktónleikar Frosta fara fram í Háskólabíói sunnudaginn 7. september og hefjast klukkan 17 en húsið opnar klukkustund fyrr. Bubbi Morthens, Daníel Ágúst, Lay Low, Dimma, Helgi Björns, Pollapönk, Krummi, Kontinuum og Petur Ben troða upp, auk þess sem Smutty sjálfur lætur að sér kveða með rokkabillíbandi sínu. Sveppi sér svo um að kynna herlegheitin.

Related Posts