Eftir að hafa verið í fríi frá öllum æfingum í rúman mánuð er komið að því … undirbúningstímabilið er hafið. Þótt þetta hafi verið virkt frí og ég tel mig hafa verið nokkuð duglegan að æfa sjálfur þá er munurinn á því að æfa sjálfur og að mæta á æfingu með liði sínu, þar sem allir keppast um að vera bestir, stórkostlegur. Þú þarft að vinna fyrir sæti þínu í liðinu og það er einungis gert með því að leggja sig allan fram þangað til blóðbragðið fræga er komið út um allan munn. Auðvitað segja gæðin til um það hverjir eru í liðinu á hverjum tíma en þegar í meistaraflokk er komið eru gæðin oftast til staðar … býrð ekki til kjúklingasalat úr kjúklingaskít o.s.frv.

Handboltinn er hörð íþrótt þar sem mikið er um snertingar. Menn er lamdir miskunnarlaust eins og harðfiskur og séu þeir ekki tilbúnir til að lemja á móti munu þeir eflaust ekki endast lengi. Ólíkt fótboltanum, sem vissulega getur verið hörð íþrótt, þá er minna um það að menn einfaldlega hlaupi fram hjá varnarmanninum án þess að vera snertir. Þú munt verða laminn og þú munt verða laminn fast. Lóðin eru vinur þinn í þessu tilfelli og því meira sem járnið fær að finna fyrir því, því meira fær andstæðingurinn að finna fyrir því.

678827

Stormurinn fyrir lognið kemur kannski spánskt fyrir sjónir margra en þegar menn fara í frí segir það sig sjálft að formið mun dala. Fyrsta vikan á undirbúningstímabili eftir frí er alveg einstaklega erfið. Menn hlaupa eins og skrattinn sjálfur sé á eftir þeim og lyfta lóðum þar til vöðvarnir eru við það að slitna. Stormurinn á fyrstu viku er samt einhver sá mikilvægasti á tímabilinu. Þarna þarf líkaminn að fá það sjokk sem hann þarf á að halda til að koma sér aftur í form. Það getur tekið tíma að koma grunnforminu aftur upp en á þessum tíma sést líka hversu duglegur þú varst í „fríinu“ þínu.

Eftir þessa fyrstu viku af helvíti á jörð ætti líkaminn að vera kominn í venjulegt stand. Þegar þú ert búinn að æfa allt þitt líf tekur minni tíma fyrir líkamann að komast á rétta braut og æfingarnar verða þægilegri. Þægilegt er kannski ekki rétta orðið því undirbúningstímabilið er vissulega strembið en það er jafnmikilvægt og það er erfitt … mjög mikilvægt.

Þegar undirbúningstímabilið klárast er stormurinn genginn yfir. Lognið er komið og loksins er deildin komin á fullt. Lognið bendir þó ekki til þess að erfiðið sé yfirstaðið því eins og allir íþróttamenn sem spila á hæsta „leveli“ þekkja tekur heilt tímabil af handbolta, fótbolta, körfubolta og hvað þetta nú heitir allt alveg gríðarlegan toll af líkamanum … en þetta er bara svo gaman og flestum finnst nú gaman að kíkja út í lognið og skemmta sér.

Garðar B. Sigurjónsson

Lesið Séð og Heyrt í hverri viku!

 

Related Posts