Stillið ykkur, gæðingar:

 

Frægðin getur svo sannarlega boðið upp á erfiða daga og það kemur fyrir bestu menn að missa stundum stjórn á skapi sínu og tapa sér aðeins í eigin ímynd. Að vísu hafa nokkrir heimsþekktir farið aðeins yfir strikið og framkvæmt ýmislegt án þess að hugsa. Hér eru þessir vandræðagemsar.

 

HINN MIKLI LEÓ

Leonardo DiCaprio er þekktur í bransanum fyrir að vera mikill stuðpinni og hafa margar góðar sögur breiðst út um Internetið af partíhöldum hans, þannig að í rauninni er þetta eitthvað sem hann gæti átt sameiginlegt með hinum mikla Gatsby sjálfum. Leó litli ku hafa gengið fulllangt yfir strikið á kvikmyndahátíðinni í Cannes á þessu ári. „Stemmarinn“ var að þessu sinni haldinn á hótelherbergi hans þar sem allt var í rúst næsta dag. Samkvæmt heimildum voru klósettin öll stífluð, baðkarið líka, sígarettustubbar voru dreifðir um allt gólf og rúmin líka. Ásamt þessu voru brotnar flöskur og haugur af kvenmannsnærfötum út um allt. Leo þurfti að greiða meira en 50 þúsund dali fyrir skemmdirnar. Charlie Sheen hefur ábyggilega verið öfundsjúkur þetta kvöld.

 

BÁLREIÐ BJÖRK

Eins stoltir og við Íslendingar erum af henni Björk okkar þá er hún ekki laus við umdeild augnablik þar sem erfiðu dagarnir hennar hafa komist í sviðsljósið. Árið 2008 réðst krúttið okkar á fréttaljósmyndara stuttu eftir að hún lenti á flugvelli á Nýja-Sjálandi. Björk bað manninn um að taka ekki myndir af sér en hann hlýddi víst ekki og fékk að kenna á því eftir á. Svipað atvik átti sér stað árið 1996 þegar hún réðst á blaðamann í Taílandi eftir að hann sagði þau grimmu orð: „Velkomin til Taílands.“

 

CROWE Á LÍNUNNI

Skylmingaþrællinn Russell Crowe verður seint fenginn í það starf að vera talsmaður símafyrirtækis en leikarinn er sagður hafa rosalega stuttan þráð, bæði í vinnunni og fyrir utan hana. Í júní árið 2005 var Crowe handtekinn fyrir að grýta heimasíma í starfsmann á hóteli. Leikarinn varð sturlaður af reiði þegar hann náði ekki sambandi við konuna sína í Ástralíu og kenndi hótelinu umsvifalaust um. Síminn fauk beint í smettið á starfsmanninum og neyddist leikarinn til að greiða sekt. Hann viðurkennir í dag að þetta voru einhver verstu mistök ævinnar, sem er pínulítið undarlegt þar sem hann minntist aldrei á sönginn sinn úr Vesalingunum.

 

HEY, JUDE

Hjartaknúsarinn Jude Law hefur oft unnið sér inn umhyggju kvenkyns aðdáenda sinna en þegar kemur að papparössum koma klærnar út hjá leikaranum góða. Hann hefur komist í mikið klandur fyrir að ráðast á ljósmyndara og fékk á sig nokkuð vondan stimpil þegar hann var sagður hafa hjólað í kvenkyns papparassa. Hún vildi meina að leikarinn hefði kýlt sig eftir að flassið á myndavélinni hennar gerði út af við hann.

 

ÖLLU VÖN

Ofurfyrirsætan Naomi Campbell hefur umhugsunarlaust upplifað sinn skerf af slæmum dögum og á þar af leiðandi beint erindi inn á þennan lista. T.a.m. er ekkert grín að vera bannað að fljúga með British Airways-flugfélaginu fyrir að ráðast á lögreglumann. Oftar en einu sinni hefur hún verið með leiðindi á Heathrow-flugvelli í Bretlandi. Naomi hefur oft ráðist á fólk og gengið óð út úr viðtölum. Þetta hefur valdið því að sumir í bransanum neita að vinna með henni og hún hefur sjálf sagt að þetta hafi verið afrakstur erfiðrar æsku.

 

 

Related Posts