Ég viðurkenni það fúslega að ég renni augunum yfir stjörnuspánna á hverjum degi. Það er mér jafn nauðsynlegt að fá vitneskju um hvaða ævintýrum ég lendi í þann daginn og að það er mér lífsnauðsynlegt að drekka nokkra bolla af kaffi áður en ég held út í daginn.

Að sjálfsögðu geri ég mér fulla grein fyrir því að hér er um saklausa dægrastyttingu að ræða en samt setur að manni stundum hrollur þegar í stjörnuspánni stendur eitthvað í þessa áttina: Gefðu engar upplýsingar um einkalíf þitt nema það sé nauðsynlegt. Það eru ekki allir viðhlæjendur vinir.

Ég er fædd í maí og tilheyri því merki nautsins, sem finnst auðvitað langflottasta merkið. Allir sem eru fæddir undir því góða merki eru auðvitað harðduglegt fólk, fylgið sér og jarðbundið. Við erum líka miklir og góðir elskuhugar og í alla staði frábær. Þetta veit ég, las það einhverstaðar. Reyndar skilst mér að þeir sem eru fæddir í hinum stjörnmerkjunum séu álíka meiriháttar, en ég kýs að líta undan þeirri staðreynd.

Þrátt fyrir að hafa lesið stjörnuspá dagsins með morgunbollanum þá man ég sjaldnast hvað stendur þar. Ég viðurkenni hinsvegar að þegar Sigga Kling birtir mánaðarspá sína þá lúsles ég hver einasta orð líkt og sé á leiðinni í lokapróf.

Ég beið í ofvæni eftir marsspá Siggu og gaf mér góðan tíma í að rýna í forspá hennar. Sigga veit sínu viti, hún er naut, og þau er best, í alvörunni.

Og hún Sigga mín Kling olli mér sko ekki vonbrigðum í þetta sinn frekar en áður; “Þú hefur líka svo mikla hæfileika í því að líta lífið öðrum augum en flestir og núna er tíminn að skoða sig um og horfa í kringum sig, hvort sem þú ert í skóla eða vinnu, því ástríða er þinn drifkraftur og ef hún er ekki til staðar í því sem þú ert að gera þá dofnar neistinn þinn. Love is all you need ætti að vera mottóið þitt næstu mánuðina.”

Já já og auðvitað spáir hún í ástarmálinn. Ég set upp sparihanska og varalit og býð spennt eftir því að ástarspáinn rætist; “Tímabilið sem þú ert að fara inn í núna mun færa þér ástarævintýri, langt ástarævintýri, elsku nautið mitt. Þú þarft að upplifa tilfinninguna og breiða faðminn út á móti henni. “

Love is all you need- takk Sigga ég elska þig.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts