Tæplega hundrað manna hópur kvikmyndagerðarmanna er á Siglufirði að taka upp fyrir sjónvarpsþáttaröðina Ófærð sem Baltasar Kormákur stendur að og er sú dýrasta sem hér hefur verið gerð.

Tæknifólk og leikarar kunna vel við sig á Siglufirði en kátína og gleði bæjarbúa er þó meiri í svartasta skammdeginu þegar gestirnir kveikja á ljóskösturum sínum og varpa birtu yfir bæinn og ekki síður mannlífið.

Allt þetta lið þarf að borða, sofa og eiga ýmis samskipti við bæjarbúa sem vilja allt fyrir það gera. Veitingahúsin hafa framlengt opnunartíma sína svo ekki sé minnst á bæjarkrána þar sem stemningin er einna líkust því sem gerist á svipuðum stöðum í Brooklyn í New York. Stjörnur á öðru hverju borði og bæjarbúar á hinum.

Halldóra á pósthúsinu man ekki aðra eins tíð og leikur við hvern sinn fingur í vinnunni. Þetta er eiginlega eins og á síldarárunum þegar mannlífið blómstraði sem aldrei fyrr í þessum litla firði.

Litlu staðirnir úti á landsbyggðinni eru að verða vinsælir meðal alþjóðlegra kvikmyndagerðarmanna eins og sannast best á Siglufirði þessa dagana. Fyrir skemmstu lögðu Michael Gambon og Stanley Tucci undir sig Reyðarfjörð við gerð Fortitude og þar áður var Ben Stiller á Seyðisfirði og í Stykkishólmi með allt sitt lið sem hljóp á hundruðum.

Það er gaman fyrir landsbyggðarfólk að fá heimsóknir sem þessar því þær lyfta ekki aðeins bæjarbragnum heldur einnig eiríkur jónssonfjárhagnum því það þarf ekki annað en að springi á einum stjörnubíl til að Diddi á dekkjaverkstæðinu græði.

Enginn ætti að afskrifa landsbyggðina. Hún lifir núna góðu lífi í bíómyndum alls heimsins sem gera lífið skemmtilegra.

Eins og við.

Eiríkur Jónsson

Related Posts