Flugstjóri heillaðist af fílslim:

 

„Þegar upp er staðið og allt er talið er ég bara maður með myndavél sem segir sögur.“ Þannig hljómar niðurlagið í stuttum formála Stefáns Jón Hafstein um ljósmyndabók sína Afríka, ást við aðra sýn.

 

Stefán Jón efndi til eins dags sýningar á myndum úr bók sinni í Studio Stafni við Ingólfsstræti. Þar komu þeir yfir 200 einstaklingar sem höfðu pantað bókina fyrir fram til að fá eintak sitt áritað. Bókin er gefin út til styrktar Karolina Fund en í henni eru myndir af fólki og dýralífi frá Malaví, og fleiri Afríkulöndum, þar sem Stefán Jón vann um fimm ára skeið sem umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunnar. Hann er ánægður með viðtökurnar,

,,Við erum þegar búin að selja bækur fyrir yfir milljón krónur og þar með er prentkostnaðurinn kominn í hús,“ segir Stefán. „Bókina má skoða í því ljósi að þrátt fyrir harða lífsbaráttu er þarna fullt af lífsglöðu fólki.“

Meðal þeirra sem voru að ná í eintak af bókinni á sýningunni var Ásgeir Guðmundsson, fyrrum flugstjóri hjá Cargolux. Hann var hrifinn af einni myndanna sem sýnir fíl á göngu með liminn hangandi nær niður í göturykið. Sú mynd minnir mikið á þekkta hestamynd eftir Gunnar V. Andrésson ljósmyndara. „Ég er heiðursfélagi hjá Reðursafninu því ég útvegaði þeim eitt sinn lim af gíraffa en þeir eru víst með þann þriðja stærsta af landdýrum í heiminum,“ segir Ásgeir.

stefán jón stefán jón

FÍLLINN: Þessi mynd Stefáns Jóns heillaði fyrrum flugstjóra hjá Cargolux.

Bergur Thorberg listmálari var einn þeirra sem komu að ná sér í bók.“Bókin er skref í átt okkar til að skilja Afríku,“ segir Bergur og var hrifinn af sínu eintaki.

Meðal gesta þennan laugardag voru margir gamlir samherjar Stefáns Jóns í pólitíkinni sem vildu leggja verkinu lið ásamt ættingjum hans.

,,Bróðir minn er ótrúlega miklu betri ljósmyndari en ég hélt,“ segir Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu. Þórunn var raunar svo hrifin af sýningunni að hún festi kaup á mynd auk bókarinnar. Þó ekki þeirri af fílnum.

SYSTIRIN: Þórunn Hafstein, systir Stefáns Jóns, heillaðist af myndunum og keypti eina – þó ekki af fílnum.

Related Posts