Sin City: A Dame to Kill For er handan við hornið:

SVALUR UNDIR STÝRI: Joseph Gordon-Levitt er á meðal þeirra sem hafa bæst við nú þegar girnilegt hlaðborð leikara. Hér leikur hann spilafíkilinn Johnny.

Síðir frakkar og smáskeinur  Glæpamyndin Sin City varð fljótlega ein af umtöluðustu myndum ársins 2005, sem vísar strax á það að framhaldsmyndinni hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Költ-myndin mikla snaraði saman örsögum úr samnefndri myndasöguseríu eftir Frank Miller og hnoðaði þær saman í stílískan ofbeldisgraut í leikstjórn Millers og kvikmyndagerðarmannsins Robert Rodriguez (Desperado, Spy Kids). Niðurstaðan hlaut gríðarlegt lof gagnrýnenda fyrir einstaklega grípandi, skarpan og ýktan stíl sem blés miklu lífi í myndasöguramma Millers. Leikhópurinn þótti heldur ekki vera af lakari endanum!

Í Syndaborg Millers er lítill skortur á spillingu, klíkuskap, blæjubílum, morðingjum eða vopnaglöðum gleðikonum. Í þessari veröld lyktar andrúmsloftið af teiknimyndalegum „film noir“-töktum og sögupersónur eru oftar en ekki vægðalausar andhetjur.

Sin City: A Dame to Kill For er framhaldið sem aðdáendur hafa beðið ólmir eftir nú í tæpan áratug, þótt ekki sé í rauninni um hefðbundið framhald að ræða heldur eins konar bræðing af beinni framlengingu og forsögu. Myndin er bein aðlögun á áður útgefnum sögum sem og nokkrum frumsömdum frá sjálfum Miller. Örsögurnar eru fjórar nú í heildina. Megnið af leikhópnum úr fyrri myndinni snýr aftur ásamt bílhlassi af nýjum andlitum.

BARA GREEN: Leikkonan Eva Green sýnir eina af bestu hliðum sínum í hlutverki tálkvendis.

Helstu hlutverkin skipa nú Mickey Rourke, Jessica Alba, Josh Brolin, Eva Green, Joseph Gordon-Levitt, Rosario Dawson, Bruce Willis, Powers Boothe, Dennis Haybert og margir, margir fleiri. Segir sig annars sjálft að stílisering af þessari gráðu er alls ekki allra en Sin City: A Dame to Kill For ætti vonandi að gleðja aðdáendur forverans.

Myndin verður frumsýnd í byrjun september.

Related Posts