Kjartan Már Kjartansson (53) bæjarstjóri er sannur Suðurnesjamaður:

Kjartan Már Kjartansson er borinn og barnfæddur í Keflavík, þar ólst hann upp í samheldinni og tónelskri fjölskyldu. Hann tók nýlega við stöðu bæjarstjóra Reykjanesbæjar og hefur staðið í ströngu frá því að hann tók við starfinu í byrjun september. Það hefur gefið á en sannir Suðunesjamenn standa keikir og er bæjarstjórinn staðráðinn í því að sigla skútunni heilli í höfn.

kjartan bæjarstjóri

Á HEIMAVELLI: Bæjarstjórinn við kirkjuna sína í Reykjanesbæ.

Með hjartað á réttum stað „Hér er ég fæddur og uppalinn og vil hvergi annars staðar vera. Hjartað brennur fyrir bæinn og ég er tilbúinn til að leggja ýmislegt á mig til að ná góðum árangri. Bæjarstjórnin stendur heilshugar á bak við þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Samheldnin er lykillinn að árangri,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Kjartani Má er margt til lista lagt, hann var um árabil skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og leikur sjálfur listavel á fiðlu. Eldri bræður hans, Finnbogi og Magnús, eru báðir þjóðþekktir tónlistarmenn en litli bróðir gefur þeim ekkert eftir á tónsviðinu.

„Tónlistin skipar stóran sess í lífi mínu og ég gríp til fiðlunnar við sérstök tækifæri, ég spila í kirkjulegum athöfnum hér í bæ, oft í jarðarförum. Ég er ekki viss um að margir bæjarstjórar spili yfir moldum bæjarbúa sinna, en mér þykir vænt um að taka þetta að mér.“

SH-img_7824

FJÖR: Bæjarstjórinn tekur lagið með Hjálmum í Hljómahöllinni.

„Ég á margar góðar minningar úr fjölbrautinni hér, þar var ýmislegt brallað og lögð drög að stórkostlegum framtíðarplönum. Ég þótti líflegur nemandi og sumum kennurum fannst ég tala heldur mikið í tímum. Eitt sinn þegar ágætur kennari hafði fengið sig fullsaddan af mér og ætlaði að slappa af eftir erfiðan dag í skólanum á jólatónleikum í kirkjunni þá tók ekki betra við því þar stóð ég og spilaði hugljúf jólalög á fiðluna. Kennarinn hafði á orði daginn eftir að það væri ekki stundarfriður fyrir mér, að ég hegðaði mér eins og púki í tímum og væri svo með geislabaug og englasvip í kirkjunni. Ætli ég hafi ekki verið nokkuð eftirminnilegur nemandi, kom svo vel á vondan, ég kenndi sjálfur í mörg ár áður en ég varð skólastjóri og þekki vel svona baldna nemendur eins og ég var sjálfur. Bara skemmtilegt að takast á við uppátækjasama krakka.

Stoltur af bæjarbúum

„Það eru heilmörg tækifæri á Suðurnesjum. Við erum með góða skóla, frábært íþróttalíf og tónlistarskólinn er að ég megi fullyrða með þeim bestu í Evrópu. Hér eru mörg tækifæri til atvinnusköpunar, við stöndum okkur vel í umhverfismálum og komum vel út úr þjónustukönnunum. Ég er líka stoltur af Hljómahöllinni og Rokksafninu, þar hefur vel tekist til og mörg tækifæri að skapast í tengslum við það verkefni.“

Ekki blautur á bak við eyrun

Kjartan Már var framkvæmdastjóri hjá Securitas áður en hann tók við bæjarstjórastólnum af Árna Sigfússyni sem hafði setið sem bæjarstjóri í 12 ár.

„Ég er nú ekki alveg blautur á bak við eyrun, sat áður í bæjarstjórn og þekki nú nokkuð vel til hér. En það er nú bara þannig að þegar nýir menn standa í brúnni þá eru ekki alltaf allir sáttir. Ég segi nú bara að aumur er óumdeildur maður. Ég tel mig vera í góðu sambandi við bæjarbúa og hlusta vel eftir röddum þeirra og svo tek ég púlsinn á mannlífinu á hverjum morgni í sundlauginni, það er nauðsynlegt að byrja daginn þar,“ segir Kjartan Már sem horfir björtum augum til framtíðar.

Related Posts