Davíð Steingrímsson (46), bareigandi á Obladí Oblada:

Davíð Steingrímsson, eigandi barsins Obladí Oblada, á að baki feril sem golfkennari í Bandaríkjunum á síðasta áratug fyrri aldar. Hann kynntist meðal annars Tiger Woods í gegnum fyrsta starf sitt hjá Big Canyon Country-golfklúbbnum  í New Port í Kaliforníu og þeir urðu kunningjar. Þetta var árið 1993 og þá var Woods aðeins 17 ára gamall.
tiger3Ævintýramaður

„Það var erfitt að eiga í samskiptum við Tiger því hann virtist lifa í eigin heimi,“ segir Davíð.
Við sitjum inn á Obladí á votum helgarmorgni. Paul McCartney gutlar í græjunum en Davíð er mikill og einlægur aðdáandi Pauls. Hann segir að ein stærsta stund ævi sinnar hafi verið að hitta Bítilinn þekkta óvænt á götu í London í fyrra. Hann hafi meira að segja náð að heilsa honum með handabandi.

 

Hundrað fótboltaleikir í meistaraflokki

Davíð er með þéttari mönnum á velli og því kemur á óvart að hann á að baki þó nokkurn feril sem fótboltamaður, á yngri árum, en hann er liðlega hálffimmtugur.
Davíð ólst m.a. upp í Smáíbúðahverfinu, nánar tiltekið Hvammsgerði, var einn vetur í MH en lauk síðan stúdentsprófinu hjá Fjölbraut í Breiðholti.  Á þessum árum hafði hann mun meiri áhuga á fótbolta en golfi.

„Ég lék með meistaraflokki hjá ÍR, Ármanni og Létti á þessum árum, aðallega sem markmaður en hef prófað flestar stöður,“ segir Davíð. „Ég held að ég hafi spilað um 100 meistaraflokksleiki á þessum ferli.“

Síðasti fótboltaleikur Davíðs var í Tulsa í Oklahoma. Hann var þar að vinna á golfvelli Mariott-hótelkeðjunnar þegar íslenskir stúdentar í háskóla staðarins fréttu af honum og báðu hann um að koma í markið í leik gegn stúdentum frá Sádi-Arabíu.  Íslendingarnir höfðu tapað fyrri leik liðanna. „Ég fékk svo á mig mark í fyrstu spyrnu leiksins. Áttaði mig ekki á því hve þungur ég var orðinn og misreiknaði skutlið,“ segir Davíð. „Eftir það tók ég mig á og við unnum leikinn 10:1.“

 

Woods og Dennis Rodman

Big Canyon Country-klúbburinn er einkum fyrir hina efnameiri og moldríkir Japanir voru áberandi í hópi meðlima hans. Davíð segir að þótt öllum hafi verið ljósir gífurlegir hæfileikar Tiger Woods á þessum tíma hafi hann hins vegar aðeins verið tekinn inn sem heiðursfélagi.

„Til þess að ná inn í PGA-mótaröðina þurfti klúbburinn að hafa minnst tvo blökkumenn á meðlimalista sínum,“ segir Davíð. „Woods var því tekinn inn sem heiðursfélagi. Hinn blökkumaðurinn sem einnig var gerður að heiðursfélaga var Dennis Rodman, þekktur körfuknattleiksmaður þarna vestra en einnig liðtækur golfari.“

Davíð segir að hann hafi verið á vakt þegar Woods kom í klúbbinn í fyrsta sinn. „Það var enginn sem yrti á hann, né vildi raunar vita af honum þarna,“ segir Davíð. „Ég spurði hann þess vegna hvort ég gæti hjálpað honum og hann sagðist vera að leita að golfhermi klúbbsins.“

Fram kemur í máli Davíðs að þeir hafi síðan orðið kunningjar og raunar hafi hann og Nick, elsti starfsmaður klúbbsins, verið þeir einu sem áttu í einhverjum samskiptum við Woods. „Það var svolítið erfitt að eiga í samskiptum við Tiger og erfitt að ná til hans því hann virtist alltaf vera í sínum eigin heimi.

 

dabbGolfkennari hjá Mariott-hótelkeðjunni

Aðspurður hvort hann hafi keppt við Woods á velli klúbbsins á þessum tíma segir Davíð að hann hafi aldrei náð að spila heilan hring með Woods. „En við tókum holu og holu af og til þegar hann var að æfa sig.“

Davíð vann sig upp í starf kylfubera (caddie) í klúbbnum en fluttist svo til Missouri þar sem ferill hans sem golfkennara hófst hjá Mariott-hótelkeðjunni sem rak fjölda golfklúbba í tengslum við hótel sín í Bandaríkjunum. „Ég byrjaði hjá The Oaks–klúbbnum í Missouri en vann síðar á öðrum stöðum, eins og hjá Marriott í Palm Springs í Kaliforníu og Southern Hills í Tulsa í Oklahoma,“ segir Davíð. „Þetta var rjómagott undir lokin, enda var ég að fá 75 dollara á tímann í þessu starfi.“

 

Úr golfinu á súlustað

Upp úr síðustu aldamótum ákvað Davíð að snúa við blaðinu og flytja heim. Hann fór að vinna í veitingahúsarekstrinum eiginlega fyrir tilviljun og að lokum stofnaði hann súlustaðinn Vegas á Frakkastíg og rak hann í nokkur ár. Eftir að súlustaðir voru bannaðir breytti Davíð húsnæðinu í Bítlabarinn Obladí. Þar er boðið upp á lifandi tónlist á nær hverju kvöldi undir árvökulum augum Bítlanna en andlitsmyndir af þeim, málaðar af Ómari Stefánssyni myndlistarmanni, eru áberandi á staðnum. Enn má sjá móta fyrir súlunni á sviðinu þar sem hljómsveitir koma nú fram. Davíð segir að golfið sé enn hans helsta ástríða. Það muni hins vegar líða ár og dagur áður en hann spilar fótboltaleik að nýju.

Related Posts