Hljómsveitin Spice Girls þarf tvær nýjar kryddpíur:

ÁHEYRNARPRUFUR Í BEINNI Á BBC

Íslenska kryddið? Hljómsveitin Spice Girls leitar að tveimur nýjum kryddpíum og mun halda opnar áheyrnarprufur í samstarfi við BBC. Sveitin var stofnuð árið 1994 og var skipuð fimm kryddpíum. Sú yngsta hét Emma Bunton og var kölluð Baby Spice („Barnakryddið“), Geri Halliwell var rauðhærð og kölluð Ginger Spice („Rauða kryddið“), Melanie Brown var kölluð Mel B eða Scary Spice („Ógnarkryddið“), Melanie Chisholm var kölluð Mel C eða Sporty Spice („Sportkryddið“) og Victoria Beckham var kölluð Posh Spice („Fína kryddið“).

22ddd-9

Spice Girls er ein söluhæsta hljómsveit allra tíma en fyrsta platan „Spice“ sem innihélt lagið „Wannabe“ seldist í yfir 30 milljón eintökum. Eftir kvikmynd, tónleikaferðir og sölu á alls kyns varningi varð algjört Spice Girls æði í heiminum. Eftir útgáfu „Spiceworld“ árið 1997 og „Forever“ árið 2000 höfðu Kryddpíurnar selt yfir 80 milljón plötur. Geri Halliwell hætti árið 1998 en hinar héldu áfram til ársins 2001. Þær komu síðast saman í eitt kvöld á Ólympíuleikunum í London árið 2012 og aðdáendur bjuggust við tónleikum í sumar til að fagna 20 ára afmæli sveitarinnar. Undirbúningur gekk vel þar til Victoria Beckham og Mel C staðfestu endanlega að þær yrðu ekki með.

Mel B kom fram í sjónvarpsþætti James Corden og var spurð hvers vegna þær kæmu ekki allar fimm saman? „Því hinar tvær tíkurnar vildu ekki vera með!“ sagði hún og brosti en bætti svo við að þær væru allar góðir vinir en Victoria væri upptekin við fatahönnun og Mel C væri að taka upp eigin plötu þessa dagana. Þær Geri, Emma og Mel B munu því halda áfram og leita að tveimur nýjum kryddpíum. Aðdáendur voru ánægðir og bresk kona sagði: „Ég man eftir því þegar ég var ung þá notaði ég hárburstann sem míkrafón, klæddi mig upp og söng hástöfum með Spice Girls lögunum. Lærði líka alla texta og æfði danshreyfingarnar svo þetta gæti alveg gengið upp.“

22-9

Sjónvarpsstöðin BBC stefnir á að gera þætti um áheyrnarprufurnar og verða þeir sýndir í apríl á næsta ári. Um áramótin verður líklega óskað eftir umsóknum á netinu ásamt myndbandi og vonandi munu íslenskir aðdáendur reyna að láta drauminn rætast. Þeir útvöldu keppa fimm kvöld í röð á BBC og síðasta kvöldið kemur í ljós hverjar nýju kryddpíurnar verða. Geri, Emma og Mel B sem kalla sig stundum GEM verða dómarar en áhorfendur munu einnig hafa áhrif á hverjir komast í úrslit. Nýju kryddpíurnar munu svo koma fram sem Spice Girls á tónleikum í Hyde park í júlí 2017 ásamt Mel B, Geri og Emmu.

Mel B bíður spennt eftir að sjá hverjir mæta í áheyrnarprufurnar og segir brosandi að söngkonan Adele láti pottþétt sjá sig. Þó ekki sé opið fyrir umsóknir ákváðu Ellen og Kristen Bell að láta vaða og sendu Mel B þessa áheyrnarprufu hér að neðan.

Verðandi Kryddpíur þurfa að æfa sig og best er að byrja á laginu „Wannabe“.

Séð og heyrt elskar Kryddpíurnar!

Related Posts