Greta Salóme (27) gefur út nýtt lag:

Söngkonan, lagahöfundurinn og fiðluleikarinn Greta Salóme skaust hratt upp á stjörnuhimininn eftir þátttöku í Eurovision 2012. Síðan þá hefur verið nóg að gera í tónlistinni en fram undan eru skemmtilegir tímar og ný tækifæri. SUMARLAG: Lagið Lifnar aftur við samdi Greta Salóme í apríl. Davíð Birgisson í Monotown sá um að „pródúsera“ lagið og í myndbandinu má sjá Gunnar Hilmarsson á gítar.

 

Uppspretta innblásturs! „Nýja lagið er algjör sumar-nostalgía, enda er ég sjálf svakalegt sumarbarn og bíð eftir sumrinu allt árið,“ segir Greta Salóme en lagið Lifnar aftur við kom út í síðustu viku. „Ég samdi það í apríl en þó að sumarið sé frábær uppspretta innblásturs er ég ekki beint með sumarlögin á lager. Lifnar aftur við er fyrsta smáskífan af því efni sem væntanlegt er og ég vonast til að gefa út plötu á næsta ári. Annars var ég að fá mjög spennandi og skemmtilegan samning í útlöndum sem opinberast á næstu dögum. Ég get þó sagt að hann felur í sér mikla vinnu frá júlí til september, bæði söng og fiðluleik, og líklega í Bandaríkjunum.“

Sjálf er Greta nýflogin til Flórída þaðan sem hún lagði upp í siglingu um Karíbahafið með kærastanum sínum, Elvari Þór. „Þetta er ekta rómantísk bíómyndasigling og kærkomið sumarfrí eftir miklar annir. Það er alveg nauðsynlegt að fá smávegis frí og hlaða batteríin. Ég hef aldrei farið í siglingu sem þessa áður en bjó í Flórída þegar ég var í námi svo það er gaman að koma þangað aftur. Eftir Eurovision gaf ég út fyrstu plötuna mína og allt árið á eftir fór í að koma fram og fylgja henni eftir. Síðustu mánuði hef ég hins vegar minnkað tónleikahald og endurraðað í tónlistarskápinn; samið nýtt efni og lagt grunn að næstu plötu.“

Greta segir nýja efnið frábrugðið því sem við höfum heyrt frá henni áður. „Það er aðeins jarðbundnara og hrárra. Auðvitað er það persónulegt enda held ég að það sé ómögulegt að semja texta án þess að hluti af manni sjálfum læðist með. Tónlistin er gífurlega stór hluti af mér og það skilar sér í lögunum.“ Ekki aftur í Eurovision … í bráð Viðbrögð við nýju lagi Gretu hafa verið virkilega góð en hún gaf einnig út myndband. Þeir Eiríkur Þór Hafdal og Davíð Lúther Sigurðarson hjá Silent gerðu myndbandið en það má sjá á YouTube.  „Það borgar sig alveg að gera myndband enda gott að styðja við lagið með einhverju sjónrænu. Myndbandið er hvorki flókið né dýrt, bara lágstemmt og einfalt og ég er mjög ánægð með útkomuna.“ Þátttaka Gretu í Eurovision opnaði ótal dyr en hún segist lítið spennt fyrir að fara aftur í keppnina. „Það á aldrei að segja aldrei, en ég er búin með þann pakka í bili. Sjónvarpsáhorfendur sjá afurðina og afraksturinn en að baki býr svakaleg vinna, sérstaklega þegar þú ert bæði höfundur og flytjandi. Það er tvöfalt álag! Annars hafði ég aldrei séð það fyrir mér að fara út í Eurovision og planaði það ekki, svo ef það gerist aftur þá verður það ekki heldur planað.“

Related Posts