Birgir Steinn Stefánsson (23) fetar í fótspor pabba síns:

Söngfugl Birgir Steinn Stefánsson og félagi hans Eyþór Úlfar Þórisson skipa saman hljómsveitina September. Tónlistarhæfileikann fengu þeir báðir í vöggugjöf en Stefán Hilmarsson söngvari er faðir Birgis Steins og Þórir Úlfarsson, tónlistamaður og upptökustjóri, er faðir Eyþórs Úlfars. Þrátt fyrir að vera ungir að árum þá er tónlist þeirra þroskuð og mætti halda að þeir hefðu starfað í tónlistarbransanum í fjölmörg ár. Nýjasta lagið þeirra, sem Stefanía Svavarsdóttir syngur, heitir Let Me Love You og er efni í góðan smell.

feðgar

SÆTIR SAMAN: Stebbi Hilmars með sonum sínum, Birgi Steini og Steingrími.

„Við köllum okkur September af þeirri einföldu ástæðu að við erum báðir fæddir í september, því lá það beint við að kalla hljómsveitina eftir fæðingarmánuðinum. Við höfum tekið nokkrar ábreiður en erum núna á fullu að semja og sendum nýverið frá okkur nýtt lag sem er komið í spilun. Ég spila sjálfur á hljómborð og trommur og Eyþór á gítar. Við tökum sjálfir upp og hljóðvinnum. Það er heilmikil sköpun í gangi. Við höfum komið fram við hin ýmsu tækifæri og erum opnir fyrir því að skemmta í skólum ef leitað verður eftir því. Ef ég gef út plötu þá er það bara til að geta sagst hafa gert það eins og kallinn, en útgáfa í dag fer fram á Netinu. Okkur pabba er auðvitað líkt saman og ég fæ gjarnan spurninguna um hver sé uppáhaldssöngvarinn minn; að föður mínum ólöstuðum verð ég að segja Chris Martin í Coldplay. Ég er samt alæta á tónlist og sæki innblástur víða.“
Það verður spennandi að fylgjast með þessu unga tónlistarfólki í framtíðinni sem verður án efa björt.

Lesið Séð og Heyrt í hverri viku og allan sólarhringinn á Netinu!

Related Posts