Ljóðskáldið Valdimar Tómasson (43) slær í gegn:

 

Ljóðskáldið og bókasafnarinn Valdimar Tómasson, Ljóða-Valdi, sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Enn sefur vatnið, fyrir sjö árum. Bókin seldist upp á skömmum tíma en í kjölfar mikilla vinsælda nýjustu bókar hans, Sonnettugeigs, hefur útgefandi hans brugðist við mikilli og óvæntri eftirspurn eftir Enn sefur vatnið með endurprentun.

Listaskáld „Sonnettugeigur kynnti mig á öðrum svæðum og meðal nýrra lesenda,“ segir Valdi og bætir við að hann hafi verið svo gömul sál þegar hann orti Enn sefur vatnið að sennilega séu flestir þeir sem keyptu hana á sínum tíma horfnir til feðra sinna.“

Það telst til tíðinda þegar ljóðabækur eru endurprentaðar og Valdi er að vonum ánægður með eftirspurnina eftir sjö ára gömlu verki hans. „Ég tel mjög jákvætt að ljóðabækur séu endurprentaðar. Margir hafa spurt mig um Enn sefur vatnið og ef ég hefði átt hana til þá hefði ég getað selt mikið af henni með Sonnettugeig,“ segir Valdi, ánægður með að geta nú loks annað eftirspurninni.

Sonnettan þykir erfið viðureignar en hún heillaði Valdimar engu að síður og svo lesendur hans eftir að hann kom Sonnettugeig frá sér. „Sonnettan hefur lengi höfðað til mín og ég hreifst frekar ungur af þessu formi í sonnettum Þorgeirs Þorgeirssonar þar sem hann kom með beitta hugsun og vel tilsniðið form.“

Valdimar segist ekkert hafa velt því fyrir sér hvort sonnettan ætti enn hljómgrunn eða að slík bók væri líkleg til vinsælda. „Ég var ekkert að hugsa um það. Ég orti þær bara,“ segir skáldið sem óvænt skóp fyrstu ljóðabók sinni auknar vinsældir með angurværum sonnettum sínum um ástina og dauðann.

Related Posts