Trukkabílstjórinn Garðar Viðarsson (37) er vinsæll á Snapchat:

Garðar Viðarsson er Njarðvíkingur í húð og hár, trukkabílstjóri og einn vinsælasti snappari landsins. Hann keyrir um á Svarta dauða og leyfir fylgjendum sínum að fylgjast með lífi trukkabílstjórans ásamt því að hann er duglegur að fíflast í liðinu. Vinsældir hans á Snapchat eru gríðarlegar enda fyndinn fýr og strangheiðarlegur. Hann gengur undir nafninu iceredneck á Snapchat og það er góð ástæða fyrir því.

Snapchat „Svenni, vinur minn, náði sér í þetta forrit einhvern tímann þegar við vorum að vinna saman á næturvakt og sýndi mér það. Við vorum svo að fíflast saman á Snapchat á dauðum tíma þannig að þetta hófst allt þar,“ segir Garðar sem er iðulega kallaður Gæi.

Aðallega fíflaskapur

Garðar hefur náð miklum vinsældum á Snapchat enda skemmtilegur snappari og alveg einstaklega heiðarlegur.

„Ætli ástæðan fyrir vinsældunum sé ekki bara út af fíflaskapnum og hvað maður er eitthvað blátt áfram held ég. Ég er með einhvers staðar á milli fjögur og fimm þúsund fylgjendur núna en ég var með annan aðgang fyrir nokkrum árum og þar var ég kominn með yfir þúsund fylgjendur og svo hætti ég í einhverja mánuði. Þegar ég byrjaði aftur þá voru margir sem söknuðu mín og þegar það fréttist að ég væri kominn með nýtt Snapchat þá sprakk þetta út. Svo er þetta bara búið að vera að vefja upp á sig á þessu ári og aukist alveg gríðarlega mikið í sumar. Það er búið að vera gaman hjá mér í sumar á vörubílnum. Ég tók trukkasnappið einhvern tímann og auglýsti mig þar og þá fjölgaði fylgjendunum mikið,“ segir Gæi sem heitir iceredneck á Snapchat og viðurkennir að það sé nokkuð hnitmiðað nafn.

„Það er klárlega redneck í mér en aðalástæðan fyrir því að ég set þetta nafn upp er að ég á fjölskyldu úti í Ameríku og þekki marga þar. Ég er með svolítið marga ættingja í Ameríku sem eru að fylgjast með mér á Snapchat og ákvað þetta nafn því ég er að sjálfsögðu Íslendingurinn og kallaður „Iceman“ í Ameríku og bjó því til þetta nafn.“

Fjölmörg fyrirtæki leita til helstu snappara landsins enda geta þeir veitt frábæra auglýsingu. Gæi segist þó ekki vera í þeim pakka og myndi einnig aldrei auglýsa neitt sem hann hefur ekki sjálfur áhuga á. Það er greinilega ekki allt falt.

„Nei, ég hef ekkert verið að auglýsa fyrir nein fyrirtæki enda hefur enginn haft samband við mig. Ég myndi samt alveg skoða það en myndi þó aldrei auglýsa eitthvað sem ég hef ekki sjálfur áhuga á. Ef ég tek þátt í einhverju svona auglýsingadæmi á Snapchat þá er það bara eitthvað sem ég fíla sjálfur eða hef gaman af,“ segir Gæi.

SH1610139775-5

FLOTTUR: Gæi hefur gaman af lífinu og finnst einnig einstklega gaman að sýna frá lífi sínu á Snapchat.

Trukkurinn er lífsstíll

Það fer ekki á milli mála þegar fylgst er með Gæa á Snapchat að hann er trukkabílstjóri. Gæi segir trukkamenninguna hér á landi vera sterka en sjálfur hefur hann verið lengi í bransanum.

„Ég byrja að keyra 2004 og var í bransanum alveg þangað til í hruninu. Ég var kominn með minn eiginn bíl og farinn að gera út sjálfur en svo náttúrlega fór allt til helvítis þarna í hruninu og þá stoppaði ég að keyra og fór að vinna á bílaleigu og var þar í sex ár. Núna er ég kominn aftur að keyra þannig að þetta er búinn að vera ágætistími,“ segir Gæi og bætir við að trukkamenningin á Íslandi sé stór.

„Þetta er búið að breytast mikið síðustu ár, þetta var ekki eins mikið áhugamál og þetta er núna. Fyrir nokkrum árum var þetta bara vinna fyrir flestalla þessa kalla sem voru í þessu en nú er þetta líka orðið að lífsstíl og áhugamáli hjá mörgum af þessum nýju bílstjórum sem hafa komið inn á síðustu árum. Þetta er ekki lengur bara vinna,“ segir Gæi sem dreymir um að keyra trukk um Bandaríkin.

„Ég hef ekki orðið svo frægur að fá að prufa amerískan trukk en það er á óskalistanum og kemur pottþétt að því, það er bara spurning hvenær. Það væri algjör draumur að vera á amerískum trukk og keyra um Bandaríkin.“

SH1610139775-1

HELLUHARÐUR: Það er erfitt að finna harðari tvennu en Gæa og Svarta dauða og harðari trukkabílstjóri er vandfundinn.

Svarti dauði

Gæi er ekki bara þekktur fyrir að vera skemmtilegur snappari heldur eru fjölmargir fylgjendur hans á Snapchat orðnir ástfangnir af bílnum sem hann ekur. Svarti dauði heitir bíllinn og það er góð ástæða fyrir því.

„Hann heitir Palli Patró, maðurinn sem á bílinn. Þetta er fullorðinn maður og á meðal annars efnalaug líka og hefur miklu meira en nóg að gera þar þannig að hann hefur ekki tíma til að sinna Svarta dauða,“ segir Gæi.

„Bíllinn hét upphaflega Uxinn þar sem númerið á honum er UX en það voru menn sem áttu hann á sínum tíma sem gáfu honum þetta nafn þar sem hann er svartur og skuggalegur og reykir rosalega mikið. Það þarf mikla olíu á hann og það er alltaf alveg svart upp úr strompinum. Mér finnst þetta nafn svo flott að ég hef bara haldið áfram að kalla hann Svarta dauða, hann ber þetta nafn vel.“

SH1610139775-2

MAÐUR OG TRUKKUR: Gæa líður vel á Svarta dauða. Saman keyra þeir um landið og leyfa fylgjendum Gæa á Snapchat að fylgjast með.

Stoltur Njarðvíkingur

Gæi býr í Njarðvík ásamt konu sinni og þremur börnum. Hann segir að það sé ljúft að vera þriggja barna faðir og líður best í faðmi fjölskyldunnar.

„Ég er uppalinn í Njarðvík og hef alltaf búið þar fyrir utan eitt ár í Keflavík og tvö ár á Hornafirði. Ég er bara Njarðvíkingur í húð og hár og er mjög stoltur af því. Ég og konan mín eigum þrjú börn saman og okkur líður mjög vel í Njarðvík,“ segir Gæi en synir hans hafa mjög gaman af því að fá að koma á rúntinn á Svarta dauða.

„Strákarnir hafa voða gaman af því að koma með en dóttur minni finnst þetta ekki lengur jafnspennandi. Hún hafði meira gaman af því í gamla daga en hún er að verða átján ára núna og farin að hugsa um aðra hluti. Strákarnir eru hins vegar með mikla bíladellu og alveg dýrka bíla og trukka.“

Þeir sem hitta Gæa gætu í fyrstu hræðst hann, enda stór maður, harður í útliti og helflúraður. Sumir feður geta einnig verið harðir í horn að taka þegar kemur að vonbiðlum dætra sinna og ekki margir unglingsstrákar sem væru til í að vera nappaðir við að borða morgunkornið hans Gæa. Hann hefur þó engar áhyggjur af dóttur sinni sem á, að sögn Gæa, virkilega góðan kærasta.

„Hún á kærasta og hefur bara átt einn kærasta. Þetta er indælisdrengur og ég kann mjög vel við hann. Ég er reyndar ekkert viss um að ég ætti neitt í hann. Hann er skal ég segja þér í júdó og fleiri bardagaíþróttum, boxi og öllum pakkanum. Svo er hann líka risastór og myndi örugglega berja mig í köku, þetta er enginn vesalingur,“ segir Gæi og skellir upp úr.

SH1610139775-3

SVARTI DAUÐI: Svarti dauði heitir trukkurinn og ber nafn með rentu. Sótsvartur, vígalegur og reykir mikið.

SH1610139775-4

MEÐ AÐRA HÖND Á STÝRI: Gæi segir trukkalífið vera ástríðu og áhugamál margra. Hér áður fyrr litu menn einungis á þetta sem vinnu en nú er öldin önnur og stoltir trukkarar eru á hverju strái.

Séð og Heyrt keyrir um.

 

 

Related Posts