Snapchat- og fyrrum fitnessdrottningin Katrín Edda Þorsteinsdóttir opnar sig í viðtali við Nýtt Líf um brotthvarf sitt úr fitnessheiminum og lygavef samfélagsmiðla. Hún tekur því alvarlega að vera talin fyrirmynd fjölmargra ungra stúlkna en allt niður í 9 ára stúlkur fylgja henni á Snapchat.

Þegar Katrín var um tvítugt þá ákvað hún að leita til einkaþjálfara því hún var viss um að hann gæti loksins gert hana „fullkomna“. „Ég fór strax að æfa fyrir mót sem er fyndið því það finnst ekki keppnisskap í mér. En ég var enn þá að leita að „fullkomnum líkama“ og hugsaði með mér að ég myndi með þessu komast í lægstu fituprósentu sem ég myndi nokkurn tíma komast í.“  Katrín hélt áfram að taka þátt í fitnessmótum en hún fann að áhuginn fór dvínandi þegar námi var lokið. Þegar þýskt íþróttafatamerki bauð henni að sitja fyrir á myndum fyrir heimasíðu þess fannst henni það skemmtileg leið til að fá smávegis aukapening.

„En svo var annað fólk á samningi hjá þeim af því það er með svo gríðarlega marga fylgjendur á Instagram. Svoleiðis Instagram-„stjörnu“ er þá skylt að birta mynd af sér í fatnaði frá merkinu einu sinni í viku og fær t.d. borgað fyrir það um 200 þúsund krónur. Sama manneskja er kannski líka með samning við fyrirtæki sem selur fæðubótarefni og birtir þá mynd af sér með prótínsjeikinn sinn og fær þá aðrar 200 þúsund krónur.  Peningurinn í þessum heimi er gríðarlegur og þessar „stjörnur“ þéna meira en ég sem vinn sem verkfræðingur hjá einu stærsta tæknifyrirtæki heims. Það er bilun!“

_01-kefors

„Ég heyrði oft dæmi um að þessir aðilar setji inn „fullkomnar“ myndir af „fullkomnu“ lífi, eru í raun og veru ótrúlega óhamingjusamir en finna sig knúna til þess að setja inn mynd á hverjum degi sem skylda við samstarfsaðilana.  Ég gat ekki hugsað mér að eyða orkunni minni í það enda er þetta ekki fyrir mig. Hafragrauturinn minn er ljótur og ég er ekki að fara að raða einhverjum bláberjum á hann svo hann líti vel út á mynd. Þess vegna elska ég Snaphat sem samfélagsmiðil því þar felurðu ekkert og getur verið nákvæmlega eins og þér sýnist.“

„Ég geri mér grein fyrir því að ég er fyrirmynd og tek því alvarlega núna en áður en svona margir fylgdu mér þá sagði ég bara allt sem mér datt í hug. En ég veit að það eru krakkar allt niður í níu ára gamlir sem fylgja mér á Snapchat og reyni ég því að passa það núna meira hvað ég læt út úr mér.“

Nýtt Nýtt líf má finna á næsta blaðsölustað.

Related Posts