SH-1438-85-20887-200x300Ég sagði skilið við þjóðkirkjuna fyrir 24 árum og fannst það satt best að segja vera allt of seint enda er ég lítið gefinn fyrir þær serimóníur sem fara fram í guðshúsum og leiðist bænadagar skelfilega. Ég skráði mig í Ásatrúarfélagið þegar ég sneri baki við Guði, með formlegum hætti skriffinnskunnar, og hef litið á mig sem heiðinn mann. Ekki það að ég trúi á Óðinn, Þór og þeirra gengi en það er skemmtilegra að spóka sig undir merkjum skemmtilegra guða en leiðinlegra.

Ég læt samt ekki jólin sem slík stuða mig mjög enda eru þau í grunninn heiðin hátíð. Hátíð ljóssins í þeim skilningi að forfeðrum okkar fannst ærið tilefni til að kneyfa öl og éta á sig gat á þessum árstíma þegar sólin fer að hækka á lofti á ný. Þeir kristnu fóru létt með að stela þessu frá okkur og beintengja við allt sitt prjál. Gott og vel. Þetta er samt fínasta hátíð og grunnþáttum okkar heiðinna, að gera vel við sig í mat og drykk, er haldið vandlega til haga.

Einn er sá söfnuður sem pirrar mig meira en þeir kristu og það eru kaupmenn og markaðsfólk. Grunnhyggið og leiðinlegt fólk sem gerir út á lægstu hvatir mannsins. Trúarliðið þykist í það minnst vera háleitt. En víxlararnir hafa nú tekið jólin frá þeim kristnu sem áður stálu þeim frá okkur heiðingjunum.

Nú byrja jólin í október í IKEA, í nóvember í Kringlunni og á Laugaveginum og sjarmi þeirra og hinn sanni boðskapur þynnist hratt út. Jólin eru vitaskuld helst fyrir börn og kjána og þegar ég var barn stóð fjörðið yfir í 24 daga. Byrjaði þegar Rammagerðin setti jólasveinana út í glugga 1. desember og lauk með pakkafylliríinu á aðfangadagskvöld. Þannig á þetta að vera. Stutt og krúttlegt.

Ógeðfeldust er svo sú tilhneiging að reyna að selja allan fjandann með tengingum við jólin. Svænastur er jólabjórinn. Hvers vegna í andskotanum þarf einhvern sérstakan jólabjór? Síðan er hann dekkri, sterkari og verri en venjulegur bjór. Þetta meikar engan sens. Hverjum öðrum en illmennum dettur til hugar að byrla fólki sterku öli í kringum hátíðarnar? Víkingarnir okkar hefðu auðvitað ekki slegið hendinni á móti 7 prósenta bjór en nú eru breyttir tímar og maður spyr sig hversu jólin verða eyðilögð fyrir mörgum börnum þegar reynslulítið drykkjufólk og hænuhausar drekka sig yfirum af jólabjór?

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts