Melkorka Gunnarsdóttir (13) er dugnaðarforkur:

 

Melkorka þeytist um bæinn og skiptir faxi fyrir hestafólk. Hún á sitt eigið „kitt“ og vonast eftir hesti í fermingargjöf.

DUGLEG: Melkorka er sú eina í fjölskyldu sinni sem er í hestamennsku. Hún er þó þakklát föður sínum sem er duglegur að skutla henni.

Gengur vel „Ég sá einhvern vera að auglýsa að hann skipti faxi fyrir peninga á Netinu og fannst það sniðugt og ákvað því að prófa þetta,“ segir hin úrræðagóða Melkorka en hún býður upp á þá þjónustu fyrir hestamenn að skipta faxi á hestum þeirra fyrir 1.500 krónur.

 

GLÆSILEGT: Glæsilega vel skipt hjá Melkorku.

Mikið að gera

„Ég er í hesthúsi hjá manni sem heitir Raggi og byrjaði að æfa mig á hestunum hans. Þegar ég var orðin nógu góð þá auglýsti ég mig á Facebook í grúppu sem er fyrir hestamenn.“

Viðbrögðin hafa verið framar öllum vonum hjá Melkorku. „Það er búið að vera mikið að gera hjá mér. Ég tek 1.500 krónur fyrir hestinn og kem með allt sjálf. Ég er búin að koma mér upp „kitti“ sem inniheldur allt sem þarf til að skipta faxi, eins og teygjurnar, spreyið og greiður.“

Melkorka hefur stundað hestamennsku í tvö ár og er í hestamannafélaginu Herði. „Ég er sú eina í fjölskyldu minni sem er í hestum. Ég á ekki hest sjálf en er mjög heppin því vinur pabba míns hefur lánað mér sína hesta og hjálpað mér mjög mikið, hann á allan heiður skilið.“

 

GENGUR VEL: Melkorka hefur sótt keppnisnámskeiðin hjá Súsönnu Sand og er nýbyrjuð að keppa.

Byrjuð að keppa

Melkorka hefur mikinn áhuga á hestum og byrjaði ung á reiðnámskeiðum. „Það er enginn annar í fjölskyldunni sem stundar hestamennsku þannig að ég hef sótt mörg reiðnámskeið. Það er frekar leiðinlegt að það séu ekki fleiri í þessu í fjölskyldunni en ég er alltaf að reyna að ná mömmu og pabba í þetta. Pabbi er samt duglegur að skutla mér út um allt, ég er mjög þakklát fyrir það.“

Melkorka er byrjuð að keppa og ber því vel söguna. „Ég er nýbyrjuð og það gengur vel. Ég er á keppnisnámskeiði hjá Súsönnu Sand og síðan hefur Ragnhildur Haralds verið að hjálpa mér líka. Ég er orðin nokkuð örugg, þökk sé þeim, en maður er samt alltaf aðeins stressaður.

Melkorka fermist núna á árinu og það kemur ekki á óvart hvað er efst á óskalistanum. „Það væri gaman að fá sinn eigin hest og þá einhvern sem ég gæti keppt á,“ segir Melkorka og brosir.

VEL GRÆJUÐ: Melkorka hefur komið sér upp „kitti“ sem inniheldur allt sem þarf til að gera óaðfinnanlega skiptingu.

 

MYNDIR: ALDÍS PÁLSDÓTTIR

Lesið Séð og Heyrt í hverri viku!

Related Posts