Græðgi er svæsnasta höfuðsyndin og sá löstur sem líklegastur er til að steypa okkur ofan í glötunarhyldýpi offitu, berserkjasveppaáts, Internets- eða áfengisfíknar. Gallinn við græðgina er að mikill vill meira og það er einhvern veginn alveg í takt við hömluleysi öfugsnúins samtímans að aukakíló og umframspik er eitt helsta mein fátæklinga á Vesturlöndum. Sykrað rusl hefur leyst af hólmi skemmdar kartöflur og hægristaðar rottur á matseðlinum og þetta er ekkert sérstaklega dýrt. Pizzur og hamborgarar, ítalskur og amerískur fátæklingamatur, hafa náð gríðarlegum, almennum vinsældum og þetta er hægt að panta í alls konar stærðum. Og alltaf hægt að stækka.

Á framanverðri 20. öldinni voru allar helstu skammtastærðir úthugsaðar og hárrétt mældar. Litla, glerkókflaskan er eitthvert besta dæmið um nákvæmlega réttan skammt. Sentilítrarnir 33 dugðu til að slá á þorsta, hressa mann við og kæta án þess að leggja grunninn að uppsöfnuðu sykurspiki. Síðar kom stór kók og svo sem allt í lagi með það. Ekkert óhóf en í dag eru lágmarksneysluskammtarnir hálfur til heill lítri. Hálfur lítri er vitaskuld allt of mikið í einu þar sem áður dugðu 33 sentilítrar. Þetta er alger sóun. Fitubollurnar klára auðvitað of stóra skammtinn og halda áfram að fitna. Hinir skilja tæplega hálfa flösku eftir og umframgosið fer í ræsið.

Sígarettan. Það er að segja hin eina rétta sígaretta er annað dæmi um fullkomna skammtastærð. Hún er ekki of stutt og ekki of löng. Hún er akkúrat. Upp á millímetra nákvæmlega það magn sem þarf af tjöru, nikótíni og öðrum eiturefnum hverju sinni. Þær drepa síðan víst alveg jafnhægt og örugglega hvort sem þær eru regular eða long.

Viskífleygur var einu sinni bara viskífleygur. Nokkuð passlegur skammtur til þess að gera einn mann ofurölvi væri drukkið óblandað af stút. Fleygur dugir auðvitað engum nú til dags. Við byrjum að telja í lítra og svo áfram út í hið óendanlega. Stór bjór hefur misst alla merkingu og nú er bjórinn borinn fram í stórum könnum eða þvottabölum þannig að jafnvel hörðustu byttur þurfa að taka á honum stóra sínum til þess að klára.

Sjónvarpsdagskráin er ekki lengur skipulagt fyrirbæri sem markaðist af upphafi þegar hóflega langt var gengið á daginn og lauk fyrir miðnætti. Nú er hún galopin í báða enda, án upphafs eða endis og glápið orðið jafnandlega grennandi og McDonlads er fitandi.

Svartasta ofgnóttarholið er svo Internetið sem er orðinn rafrænn og ósýnilegur holdgervingur taumlausrar græðgi nútímamannsins. Plássið þar er endalaust og framboðið á upplýsingum, gagnlegum og gagnslausum, klámi, viðbjóði, skemmtun, heimsku og leiðindum er ótakmarkað. Síðan er hægt að fá þetta allt saman í einn síma. Hey! Ég á einn helvíti góðan síma sem kostaði 120.000 fyrir tveimur árum og virkar vel. En það er kominn annar næstum alveg eins. Bara aðeins stærri og klárari. Verð að kaupa hann. Jafnvel áður en hann kemur til landsins.

Related Posts