Í ár eru stóru brandajól sem þýðir að við fáum óvenjumarga frídaga í kringum hátíðarnar. Sumir kjósa að nýta þennan tíma í eitthvað gáfulegt, eins og lestur góðra bóka, en aðrir vilja bara koma sér vel fyrir framan sjónvarpið og það er ekkert að því. Annir hversdagsins koma oft í veg fyrir að við getum horft á alla þá þætti sem okkur þykja spennandi svo þeir safnast upp. Það er þó fátt betra en að horfa tafarlaust á hvern þáttinn á fætur öðrum og því er gott að nota frídagana í að horfa jafnvel á heilu þáttaraðirnar.

 

Jólaþættir

SNILLD: Sherlock-þættirnir frá BBC hafa slegið í gegn

Klassískir leynilögguþættir:

Sherlock-þættirnir frá BBC eiga fjölmarga aðdáendur, enda snilldarþættir. Þættirnir ná að koma áhorfandanum stöðugt á óvart og bjóða upp á áhugaverðar sögur og sakamál. Hver þáttur er sjálfstæð eining, og á við bíómynd að lengd, þar sem eitt tiltekið mál er rannsakað og leyst. Þar sem þættirnir eru breskir er ekki mikið um hasar og meira er gert úr vitsmunalegum samræðum og húmor. Þeir sem eru hrifnir af sögunum um Sherlock en vilja meiri Hollywood-hasar geta skoðað bandarísku Elemantary-þættina.

 

 

 

 

 

Jólaþættir

SIÐBLINDUR: Frank gerir allt í sínu valdi til að komast á toppinn.

Kalt á toppnum:

House of Cards fjallar um pólitíkusinn Frank Underwood sem gerir allt í sínu valdi til að komast á toppinn. Þeir voru framleiddir fyrir Netflix og eru bókstaflega hannaðir fyrir svona maraþonáhorf. Söguþráðurinn minnir um margt á Shakespeare-leikrit, eins og Hamlet, Richard III og Macbeth, svo að maður þarf að hafa sig allan við að fylgjast með. Kevin Spacey vinnur þvílíkan leiksigur í aðalhlutverkinu og Robin Wright er ekki síðri sem eiginkona Franks, Claire Underwood.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flott á framabraut:

Jólaþættir

MARGVERÐLAUNAÐIR: Julia Marguiles er stórkostleg í hlutverki sínu sem góða eiginkonan

The Good Wife eru margverðlaunaðir þættir sem fjalla um Aliciu sem hefur alltaf verið eiginmanni sínum góð kona. Þegar hann fer í fangelsi eftir að upp kemst um spillingu og kynlífsskandal hans þarf hún að sjá fyrir sér og fjölskyldunni og fer því aftur til starfa sem lögfræðingur. Julia Marguiles er stórkostleg í hlutverki sínu sem Alicia. Vandaðir þættir þar sem valdatafl, réttlætisbarátta og forboðin ást er í aðalhlutverki.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólaþættir

VILL MEIRA: Segir frá efnafræðikennaranum Walter White sem þráir meira út úr lífinu.

Geggjaður efnafræðikennari:

Breaking Bad segir frá efnafræðikennaranum Walter White sem þráir það að fá meira út úr lífinu og geta gert meira fyrir fjölskyldu sína. Hann bregður á það ráð að hefja framleiðslu og sölu á fíkniefninu crystal meth, ásamt fyrrverandi nemanda sínum, Jesse Pinkman. Smám saman missir hann stjórn á aðstæðum og vandamálin hrannast upp. Þættirnir hafa unnið til fjölda verðlauna fyrir leik og skrif. Síðasti þátturinn var sýndur í september í fyrra svo hægt er að horfa á alla sextíu og tvo þættina í einum rykk.

 

 

 

 

 

 

 

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts