Andlátsfregnir eru af ýmsum toga, eins og gefur að skilja, en sumar greypast í hugann og gleymast aldrei.

Kannski verður það þannig með fréttina um andlát David Bowies. Ég kom fram um hálfáttaleytið að morgni og teygði mig í kaffikönnuna í eldhúsinu þegar ástin mín líkt og hvíslaði, þar sem hún sat við tölvuna á borðstofuborðinu: David Bowie er dáinn. Ég á eftir að muna þessa morgunstund því mér brá.

Líkt og þegar ég hafði verið að renna mér á skíðasleða í brekkunni heima, lítill drengur, og skaust inn til að fá kakó fyrir næstu ferð. Þá heyrði ég að mamma og pabbi voru að tala saman í hálfum hljóðum: Kennedy var myrtur. Ég var lítill en mér brá og man enn.

Eins var það með John Lennon. Var þá að skúra danska fjárlagaráðuneytið seint um nótt þegar fréttin kom í morgunútvarpinu sem alltaf var í gangi. Þá lagði ég frá mér moppuna, slökkti á ryksugunni og fékk mér sígarettu inni á skrifstofu ráðuneytisstjórans. Gott ef ég opnaði ekki ölflösku úr vínskáp hans. Mér brá og gleymi aldrei.

Árásina á Tvíburaturnana man maður líka líkt og gerst hefði í gær. Sat við vinnu mína á DV í Þverholti og gjóaði augunum á sjónvarpsskjá þar sem flugvél flaug inn í fyrri turninn. Hélt það væri kennsluflugvél en þegar önnur vél birtist og flaug á þann síðari stóð ég upp og starði. Man að Sigmundur Ernir stóð við hliðina á mér og við bara störðum.

Svo gleymi ég aldrei þegar Reynir Traustason gekk upp að mér á sameiginlegri skrifstofu okkar uppi á Höfða fyrir nokkrum árum og sagði líkt og í leiðslu: Rúnar Júl er dáinn. Það var dálítið eins og með David Bowie um daginn.

Hins vegar man ég ekki hvar ég var þegar Elvis Presley dó, hvernig sem á því stendur og er mér reyndar

eir’kur j—nsson

alveg óskiljanlegt. En það kemur kannski síðar því lífið heldur áfram og við skulum reyna að gera það skemmtilegt á meðan tími gefst til.

Eiríkur Jónsson

Related Posts