Þær eru mismunandi þarfir fræga fólksins þegar kemur að því að troða upp á tónleikum. Á meðan sumir vilja nærbuxur, vilja aðrir fá sjö dverga klædda eins og í ævintýrinu um Mjallhvíti og dvergana sjö. Vikan tók saman nokkrar kröfur sem stjörnurnar gera áður en þær stíga á svið.

 

24 rauðar rósir og barnaolía

LL Cool J er sérvitur og það ætti ekki að fara fram hjá nokkrum manni sem les sér til um lífshætti hans. Hann er til dæmis með skipulagðan matseðil frá degi til dags, eins og að hann sé að borða í mötuneyti í grunnskóla. Spagettí á mánudögum og kjötfarsbollur á þriðjudögum. Kröfur hans áður en hann fer á svið eru álíka furðulegar. Hann fer fram á að fá til sín 24 rauðar rósir og barnaolíu. Hvað hann notar þetta í er hulin ráðgáta. Guð hjálpi aðstoðarmönnum hans ef olían gleymist!

 

Hitastigið tuttugu og þrjár gráður

Frá árinu 1990 hefur Celine Dion verið þekkt díva í tónlistarheiminum. Hún hefur átt nokkra slagara, sem flestir kannast við, á borð við My Heart Will Go On og Because You Loved Me. Hún er vinsæl meðal aðdáenda en hún getur verið mjög sérvitur þegar hún er baksviðs. Furðulegasta krafa hennar er án efa sú að hún vill hafa hitastigið í herberginu nákvæmlega tuttugu og þrjár gráður. Af hverju? Það er góð spurning. Stærsta spurningin er samt, hvernig fer hún að því að fylgjast með því að hitastigið sé alltaf rétt?

 

Allir edrú, nema ég!

Þegar Amy Winehouse var á meðal okkar og hélt tónleika fór hún alltaf fram á að fylgdarlið hennar væri edrú. Hún gæti þá slett úr klaufunum og félagarnir passað upp á hana. Þarfir hennar voru ekki fleiri. Blessuð sé minning hennar.

 

Einkasími sem ekki má hringja í

Britney Spears hefur farið mikla rússíbanareið á sínum ferli. Hún gerir þær kröfur að hafa einkasíma, sem má ekki hringja í, hann er aðeins fyrir hana til að hringja úr. Komi það fyrir að einhver hringi í símann sektar hún samstarfsaðila sína fyrir óheimil símtöl. Hún fer einnig fram á sjónvarp, tvo sex feta sófa og lyktarfrítt teppi. Seinni hlutirnir á listanum eru svo sem skiljanlegir en einkasími? Hún þarf að koma á 21. öldina og uppgötva farsíma!

 

Læknir og B12-vítamín

Tónlistarmaðurinn Prince hefur skrifað fjöldann allan af lögum. Hann er vinsæll meðal kvenna og þær elta hann á röndum hvar sem hann er. Það má segja að hann sé dálítið furðulegur þegar kemur að kröfum hans baksviðs. Hann vill hafa lækni hjá sér öllum stundum til að sprauta sig með B12-vítamíni, þegar þörfin fyrir það kemur yfir hann. Ókei, það er allt í góðu að hafa lækni hjá sér og hann virðist háður B12-vítamíninu sínu. En hann gerir einnig aðrar kröfur; allur matur sem kemur til hans verður að vera plastaður með glærri filmu, enginn má koma við filmuna eða matinn fyrr en hann afhjúpar hann.

 

Kaffið hrært rangsælis

Jennifer Lopez er farsæl söngkona og tískudíva. Þegar hún er baksviðs þá vill hún helst hafa allt hvítt í kringum sig. Hvíta dúka á borðum, hvít blóm, hvíta sófa og hvít kerti. Hljómar dálítið rómantískt. Hins vegar er nokkuð sem er furðulegt við sérþarfir hennar en það er að það má bara hræra kaffið hennar rangsælis. Annars verður allt vitlaust.

 

Mjallhvít og dvergarnir sjö

Lagasmiðurinn Iggy Pop toppar líklega alla í furðulegheitum. Hann hefur verið þekktur fyrir frábæra og óheflaða sviðsframkomu. Það má vera að hann sé frábær en furðulegasta bón hans baksviðs var þegar hann bað um sjö dverga klædda eins og í ævintýrinu um Mjallhvíti og dvergana sjö. Það hefur aldrei komið upp úr kafinu hvað honum gekk til.

 

Tannlaus og sköllótt

Marilyn Manson er líklega best þekktur fyrir furðulegan persónuleika. Hann leggur sig fram við að sjokkera og hefur tekist það ágætlega hingað til. Hann fer fram á að fá að hafa Haribo-gúmmíbangsa, popp og Doritos hjá sér þegar hann undirbýr sig baksviðs. Það sem sjokkerar þó mest er að hann hefur óskað eftir sköllóttri, tannlausri gleðikonu til að vera hjá sér í herberginu.

Related Posts