Sjarminn dofnaði og lundabúðir spretta upp

Katla Hreiðarsdóttir innanhússhönnuður (32) í skýjunum með viðtökurnar í Múlanum

Stórglæsilegt opnunarteiti var haldið í nýjum húsakynnum verslunarinnar Systur og makar í Síðumúla á dögunum en eigendurnir ákváðu að loka á Laugaveginum og flytja verslunina í skemmtilegra umhverfi. Katla Hreiðarsdóttir var alsæl með viðtökur viðskiptavina á opnuninni og fjöldi fólks lagði leið sína í teitið. Katla er innanhússhönnuður og ein af fjórum eigendum verslunarinnar Systur og makar.

Katla

SYSTUR: Ofurkátar systur, ánægðar með flutninginn í Múlann.

Katla

LUKKULEG: Katla er ein af eigendum verslunarinnar Systur og makar en fyrirtækið er rekið af tveimur systrum, Kötlu og systur hennar, Maríu Kristu, sem er grafsískur hönnuður, ásamt mökum þeirra, Þórhildi Guðmundsdóttur, sem er maki Kötlu, og Berki Jónssyni, eiginmanni Maríu Kristu. Þau voru alsæl með viðtökur viðskiptavina í nýja húsnæðinu í Múlanum en verslunin hefur flúið af Laugaveginum og er komin í Múlann.

Sjarminn ,,Ég hef séð rosalega miklar breytingar á miðbænum síðustu ár og of margar rótgrónar verslanir hafa þurft að víkja fyrir sérhönnuðum ferðamannabúðum sem mér finnst því miður alltof mikið af. Mesti sjarminn sem fylgdi Laugaveginum hefur dofnað. Áður var ekki allt fullt af stórum keðjuverslunum og lundabúðum. Það er afar leitt að sjá þróunina sem hefur orðið á miðbænum á þessum stutta tíma um leið og margt jákvætt er að gerast og mikil uppbygging er í gangi. Lausn þarf að finna við þessari þróun, margir hafa nefnt að setja kvóta á svona búðir, í það minnsta þarf að grípa inn í,“ segir Katla og bendir á að þetta sé hennar mat. En í byrjun sumars fengu rekstraraðilarnir tilkynningu þess efnis að þeir væru að missa húsnæðið. Katla hefur rekið verslunina Volcano Design á sama stað síðan 2009 og henni var svo breytt fyrir rúmu ári í verslunina Systur og makar sem býður upp á mun meira úrval en fatnað.

Yfir í Múlann
Eftir að hafa rekið verslunina á Laugavegi síðustu 7 ár kom ekkert annað til greina hjá þeim systrum en að halda sig þar eftir sameininguna. En það var ekki raunhæft þar sem leigan hækkaði og hækkaði og er nú komin upp úr öllu valdi og allir ætla að græða meira en sá næsti. ,,Við sáum að þetta væri kannski ekki lengur staðurinn fyrir okkur þar sem verslun með íslenska framleiðslu fylgir jú mikill kostnaður,“ segir Katla til áréttingar. Til að vera vissar settu þær af stað skoðanakönnun þar sem kúnnarnir þeirra voru einfaldlega spurðir hvar þeir vildu sjá verslunina Systur og maka. ,,Svörin komu okkur vægast sagt á óvart, kúnnarnir vildu okkur alls staðar annars staðar en í 101-hverfinu. Það víkkaði auðvitað sjóndeildarhringinn og margir nefndu verslunarmiðstöðvarnar, Hafnarfjörð, og jafnvel Granda og enn fleiri töluðu um Skeifuna og Múlann. Vinnustofan okkar er í Síðumúla 32 svo það var tilvalið að reyna að fá húsnæði nálægt henni. Svo leitin hófst og við fundum núverandi húsnæði okkar í Síðumúla 21, sem er töluvert stærra en fyrra húsnæðið en við ákváðum að taka áhættuna og stökkva á það. Við stækkunina gátum við nú tekið inn aðeins fleiri merki sem okkur hafði lengi dreymt um, eins og t.d. Nkuku-vörurnar sem eru „Fairtrade-vörur“, dásamlega fallegar og passa vel við okkar merki.“ Einnig komu þær upp stóru kaffihorni og stefnan er tekin á að vera með langar opnanir, kynningar og skemmtilegheit fyrsta fimmtudag í mánuði fyrir alla sem vilja koma og hlusta og/eða kynna eigin vörur, enda nóg rými. ,,Við trúum á að dreifa gleðinni og nýta „hypið“ þegar það á sér stað, ekki keppa alltaf öll í sitthvoru horninu, það hefur margsannað sig að það að vinna saman margborgar sig.“

Katla

GLAÐAR: Katla Hreiðarsdóttir og Svava Halldórsdóttir voru glaðar í bragði og skáluðu í tilefni opnunarinnar.

Katla

FLOTTAR: Eygló Erla Þórisdóttir og Kristín Eysteins mættu hressar.

Dásamleg stemning og mikil ánægja í opnunarteitinu
Veglegt opnunarteiti var haldið í tilefni flutninganna í Síðmúlann og var öllu tjaldað til. Yfir tvö hundruð manns komu við og fögnuðu flutningunum og nutu góðra veiga. Það var fullt út úr dyrum frá klukkan sjö til níu um kvöldið. Boðið var upp á osta frá Búrinu, en Eirný ostaséní er góð vinkona fjóreykisins, drykkjarföng frá Ölgerðinni og gómsætt súkkulaði frá Omnom. Einnig voru hönnuðir og umboðsaðilar með kynningu á vörunum sem Systur og makar selja í versluninni. Gleðin var í forgrunni sem og gjafmildi verslunareigenda. ,,Við ákváðum að vera með tombólu og söfnuðum saman rúmlega fimmtíu vinningum frá mörgum af þeim merkjum sem við seljum frá. Við gáfum fullt af gjöfum sjálf og hugsunin var að fyrstu fimmtíu sem myndu versla fengju að draga miða og fengju þá allir aukavinning. Við vorum í sjokki yfir viðtökunum og það var röð við kassann frá opnun til lokunar og vinningarnir kláruðust ískyggilega hratt svo þetta var frábært kvöld í einu og öllu,“ segir Katla og brosir allan hringinn. ,,Dásamleg stemning var á staðnum, allir svakalega jákvæðir með flutningana og stærðina á búðinni. Margir töluðu um hvað það væri mikilvægt að vera með bílastæðin beint fyrir framan og hvað við værum komin miðsvæðis. Eins var mikið nefnt hvað miðbærinn væri nú í einu og öllu hugsaður fyrir ferðamennina og það þótti mér leitt að heyra. Ég held að við séum ekki þau einu sem erum á því að þegar við ferðumst um heiminn viljum við ekki aðeins upplifa vinsælustu staðina heldur líka menningu hvers staðar fyrir sig og fylgjast með íbúum. Þetta megum við hér heima ekki missa. Við þurfum að halda okkar sérkennum.“

Snapchat er málið
Fyrir ári síðan tók fjóreykið sumarbústað í gegn og leyfði kúnnunum að fylgjast með því verkefni frá upphafi til enda sem var gríðarlega vinsælt. ,,Okkur datt því í hug að leyfa öllum að fylgjast með þessum breytingum líka enda sjáum við um allt og gerum allt sjálf. Við bættum Snapchat-miðlinum við sem stækkaði mjög ört og fólk beið í ofvæni að sjá skemmtilegar lausnir, málningarvinnu og jú fíflaskapinn í okkur því við erum jú bara við og reynum að hafa þetta allt létt og skemmtilegt. Að fíflast í gegnum þessar miklu breytingar var gott því stressið yfir flutningunum gat auðveldlega náð yfirhöndinni því við vissum auðvitað ekkert hvort þetta væri rétt ákvörðun.“

Katla

GLEÐUR AUGAÐ: Hönnunarvörurnar grípa Hildigunni Smáradóttur föstum tökum.

Katla

DEKUR: Þórhalla Kristjánsdóttir í lökkun hjá Essie.

Katla

HÖNNUN: Óróarnir frá Kristu Design boða jólin. Verslunin er einskonar samastaður fyrir hönnunarmerki systranna Volcano Design og Kristu Design undir einum hatti þar sem þær selja eigin hönnun í formi fatnaðar, skarts og heimilisvöru. Einnig er boðið upp á úrval af vörum frá Crabtree & Evelyn, Essie, Nkuku, Insight-hárvörur, ilmvörur, plaköt og fleira. Systur og makar reka saman þrjár verslanir, eina í Reykjavík aðra á Akureyri og þá þriðju á Netinu.

Katla

HRESSAR: Berglind Beinsteins, Sigríður Beinsteins og Elsa Bára Traustadóttir brostu sínu breiðasta í opnunarteitinu.

Katla

TÖFF: Bergrós Kjartansdóttir og Þóra Jóna Jónatansdóttir voru hrifnar af nýja staðnum.

Katla

TROÐFULLT: Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á opnun verslunarinnar Systur og makar í Múlanum.

Katla

TARFUR FRÁ KRISTU DESIGN: Allar vörur Volcano og Kristu Design eru framleiddar hér á landi en þær reka einnig verkstæði, vinnustofu og saumastofu þar sem fjöldi starfsmanna vinnur við að koma vörunum frá hugmynd að veruleika.

Katla

TÓNAR: Gítaristinn Bjarni Már Ingólfsson gleður gesti með fallegum tónum.

Katla

Séð og Heyrt verslar í fallegum búðum.

 

 

Related Posts