Hulda Hjálmarsdóttir (29) er formaður Krafts:

Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað í október 1999 af ungu krabbameinsgreindu fólki sem fannst vanta þjónustu fyrir ungt fólk með krabbamein. Félagið sem var lengi vel eingöngu rekið af sjálfboðaliðum, býður upp á jafningafræðslu og stuðning fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára og aðstandendur þess. Starfsemin hefur farið vaxandi með árunum og fyrr á árinu vakti herferð Krafts Scar Your Scar mikla athygli en þar steig ungt fólk með krabbamein fram og sýndi ör sín og sagði sögu sína til að opna umræðuna um krabbamein.

Sigrumst á því saman „Fyrir tveimur árum áttum við fimmtán ára afmæli og þá var Neyðarsjóður Krafts stofnaður en hann styður við ungt fólk í fjárhagsvanda,“ segir Hulda. „Einstaklingar sem þurfa að greiða háar upphæðir vegna lækniskostnaðar eða lyfjakaupa geta sótt um styrk hjá sjóðnum. Sama ár héldum við styrktartónleika í Hörpu sem hétu Gerum kraftaverk og ágóði þeirra rann í neyðarsjóðinn,“ segir Hulda.

„Félagsmenn eru 560 talsins og af þeim eru um 60% greindir og 40% aðstandendur,“ segir Hulda. „Oftast leitar fólkið sjálft eftir þjónustu og skráir sig í félagið. Í dag erum við með framkvæmdastjóra í 80% stöðu og sálfræðing í 30% stöðu,“ segir Hulda.

Kröftugt og öflugt starf fer fram hjá Krafti
Kraftur er með endurhæfingarhóp sem kallast FítonsKraftur, en þar býður þjálfarinn Atli Már Sveinsson íþróttafræðingur, sem er sérmenntaður í endurmenntun fyrir krabbameinsgreinda, upp á þjálfun í formi endurhæfingar og útivistar. „Við erum líka með ungliðahóp fyrir 18-29 ára í samstarfi við Ljósið og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Kraftur býður líka upp á sálfræðiþjónustu þar sem félagsmenn geta fengið viðtal þeim að kostnaðarlausu. Hægt er að hringja í stuðningssíma félagsins og tala við einstakling með krabbamein eða aðstandanda. Krabbameinsdeildir Landspítalans sjá um að afhenda krabbameinsgreindum gjafapoka frá Krafti með upplýsingum um þjónustu félagsins,“ segir Hulda. „Samstarf okkar við spítalann heitir Sigrumst á því saman og það skilar sér ágætlega.“

Kraftur er rekið með frjálsum framlögum, félagsgjöldum og velvilja almennings en nýtur ekki opinberra styrkja. „Við fáum verkefnatengda styrki til dæmis til reksturs Fítonskrafts og vegna sálfræðiþjónustu. Í Reykjavíkurmaraþoninu hlaupa margir fyrir okkur, bæði félagsmenn og aðstandendur, einnig fólk sem hefur reynslu af krabbameini. Þetta er einn af stærstu tekjustofnum okkar,“ segir Hulda.

„Við erum nýbúin að setja í loftið netverslun og hugmyndin er að búa til varning og vörur tengdar félaginu, auka stöðugildi sálfræðings hjá félaginu þar sem eftirspurn er mikil og einnig er margt annað líka í deiglunni sem ekki er hægt að gefa upp að svo stöddu,“ segir Hulda. Kraftur er með heimasíðuna kraftur.org og er jafnframt á Facebook, Snapchat og Instagram undir notendanafninu krafturcancer.

13580390_10154053039134584_8362118767166591619_o

KRAFTMIKIL: Stjórn Krafts, þau Þórir Ármann Valdimarsson, Hulda Hjálmarsdóttir, Kristín Þórsdóttir, Ólafur Einarsson, Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bóel Hjarta.

13584851_10154053040004584_8593507909421067567_o

STJÓRINN OG SÖNGDÍVAN: Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, og sonardóttir hennar, söngkonan Stefanía Svavarsdóttir.

13585017_10154053039969584_2217214971929994256_o

ÚLFSKRAFTUR: Strákarnir í Úlfur Úlfur, Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson, stilltu sér upp með kröftugum hópi.

13584736_10154053040174584_6442343484927046141_o

HRESS ÞJÁLFARI: Atli, þjálfari FítonsKrafts, endurhæfingu fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, mætti hress. Með honum á myndinni eru Berglind og Eiður Már.

13613329_10154053040359584_9062880033618514918_o

KRÖFTUG FJÖLSKYLDA: Bóel Hjarta, gjaldkeri Krafts, ásamt manni sínum, Hjálmari, og börnum. Bóel missti systur sína úr krabbameini.

13528573_10154053039554584_8934326798015478335_o

KIDDI OG KRISTÍN: Kristján Björn er að berjast við heilaæxli og hefur hann fjallað opinskátt um baráttuna í viðtölum. Kona hans, Kristín, er í stjórn Krafts.

13558931_10154053040334584_3462121443613593020_o

KRAFTAKONA: Hildur Björk Hilmarsdóttir, einn af stofnendum Krafts, ásamt föður sínum, Hilmari, og syni sínum, Hilmari Birni. Hildur og systir hennar hafa báðar greinst með krabbamein.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Related Posts