Zlatko Krickic (43) er funheitur í Borgríki 2:

 

Serbinn Zlatko Krickic ólst upp í Króatíu og fluttist til Íslands fyrir fimmtán árum til þess að spila fótbolta. Hann starfaði lengi vel sem bifvélavirki en hefur sýnt magnaðan stórleik í glæpamyndunum Borgríki og Borgríki 2. Hann hefur vakið slíka athygli að Facebbok-skilaboðum frá konum, sem vilja kynnast honum, rigna yfir hann. Svo mjög að honum þykir nóg um.

 

FEÐGAR: Zlatko líður hvergi betur en í félagsskap Andrejs.

FEÐGAR:
Zlatko líður hvergi betur en í félagsskap Andrejs.

Töffari  Zlatko Krickic leikur serbneska krimmann Sergej með miklum tilþrifum í Borgríkis-myndunum tveimur. Hann býr í Reykjavík með níu ára syni sínum, Andrej Alexander, og unir hag sínum vel. „Hann er alltaf hjá mér núna vegna þess að mamma hans skrapp til Króatíu,“ segir Zlatko glaðlega þannig að hvergi sést glitta í hörkutólið Sergej. Hér talar einlægur og ljúfur maður sem veit ekkert betra en að eyða tíma með syni sínum.

Zlatko segist vera ákaflega ánægður með nýju Borgríkismyndina þótt honum hafi verið nokkuð brugðið þegar hann sá í hvaða átt persóna hans þróaðist síðan í fyrri myndinni. „Það er fyndið hversu margir kannast við mig eftir að ég lék í myndunum og ég finn fyrir því á förnum vegi og úti í búð.“ Hann segir fólk þó ekki óttast hann þótt hann sé þekktur fyrir túlkun sína á hörðum krimma. „En ef ég verð reiður spyr ég bara hvort fólk vilji að Sergej komi,“ segir þessi einstaki ljúflingur og hlær.

Það eru ekki síst konur sem veita Zlatko athygli. Hann er einhleypur og fær lítinn frið fyrir áhugasömum konum. „Pósthólfið mitt á Facebook logar bara. Það streyma inn skilaboð frá konum sem vilja kynnast mér betur. Þetta er orðið svo mikið að ég er eiginlega hættur að svara.“

FEÐGAR: Zlatko líður hvergi betur en í félagsskap Andrejs.

FEÐGAR:
Zlatko líður hvergi betur en í félagsskap Andrejs.

Andrej, sonur Zlatkos, fer með lítið hlutverk í Borgríki 2 en hann miðar leikfangabyssu á skúrkinn Gunnar, sem Ingvar E. Sigurðsson leikur, í byrjun myndarinnar. „Hann vill verða frægur eins og pabbi,“ segir Zlatko og hlær. „Hann segir að allar stelpurnar í skólanum séu á eftir sér eftir þetta.“ Greinilega margt líkt með skyldum.

Zlatko er ekki lærður leikari og segir það hafa verið frábæra reynslu að vinna með Ólafi Jóhannessyni leikstjóra. „Það er búið að vera rosalega gaman að vinna með þessu fólki sem Óli valdi saman. Ofboðslega skemmtilegt að vera með þeim alla daga,“ segir Zlatko og leggur mikla áherslu á í hversu mikilli þakkarskuld hann er við Ólaf. „Borgríki 2 er kvikmynd sem tvinnar saman blóði, hefnd og tilfinningum og hér sýnir Óli hversu stílfimur hann er. Hann uppgötvaði mig og gerði mig að þeim sem ég er. Mér finnst þetta frábært og það er eins og hann komi frá annarri plánetu þar sem allt er svo einfalt. Hann flytur þennan einfaldleika hingað til okkar og gerir allt svo auðvelt. Þar liggur sjarminn hans.“

Zlatko eyddi öllu síðasta sumri með Andrej. „Við vorum úti í Króatíu og það var rosalega flott. Ég er með hús í Króatíu við ströndina og við nutum lífsins þar,“ segir Zlatko sem kann vel við að vera einhleypur. Það einfaldi lífið. „Það er gott að vera einn og eyða tímanum með stráknum.“

Related Posts