Viktor (27) í Endless Dark er alvörukall:

Viktor Sigursveinsson, söngvari rokkhljómsveitarinnar Endless Dark, hannar og framleiðir leikfangafígúrur sem hann byggir á þekktu dóti úr dægurmenningunni. Handgerðu kallana sína selur hann á Netinu þar sem þeir kosta frá 60 dollurum, eða rúmum 8.000 íslenskum krónum. Safnarar víða um heim kaupa af honum en hann skaffar samt björg í bú sem nuddari sem er hans aðalstarf.

ALLTAF Í RÆKTINNI: Hér hefur Viktor slengt saman þekktum Star Wars-köllum og He-Man.

ALLTAF Í RÆKTINNI:
Hér hefur Viktor slengt saman þekktum Star Wars-köllum og He-Man.

Líkamsbygging fígúranna sem Viktor hannar er kunnugleg en hana fær hann lánaða frá helmössuðum He-Man-köllunum sem nutu vinsælda seint á níunda áratugnum. „Ég hef lengi verið hrifinn af He-Man, sennilega frá 1987. Frændur mínir áttu þessa kalla og ég varð alveg hugfanginn af þeim,“ segir Viktor.

Viktor hafði lengi langað að búa til leikföng í þessum anda og lagðist í rannsóknarvinnu. „Ég byrjaði að kynna mér hvernig þetta er gert og hafði samband við náunga í Bandaríkjunum sem gerði svona hluti og spurði hvort hann gæti gert svona fyrir mig. Hann nefndi upphæð sem ég sætti mig ekki við og ákvað þá að gera þetta sjálfur. Ég kynnti mér aðferðirnar á Netinu og keypti mér hráefni.“

Viktor sankar að sér alls konar líkamspörtum af svokölluðum „bootleg“-fígúrum, ódýrum eftirlíkingum af gömlu leikföngunum. Hann gerir sílikonmót af líkamshlutunum og steypir þá síðan í plast. „Ég geri þetta inni í geymslu vegna þess að þegar maður er að sulla með þessi efni fara þau út í loftið, efni sem maður vill ekki vera með nálægt börnunum.“

Framleiðslu sína selur Viktor á vefsíðunni viktorsvintage.storenvy.com og selur meðal annars til Þýskalands, Brasilíu og hinna Norðurlandanna. „Þetta er ekkert rosalega stór markaður og þetta eru aðallega safnarar, gæjar sem eiga allt og eru viljugri til þess að borga fyrir handgerðar fígúrur.“

Viktor hefur nóg að gera í nuddinu, sem er enn hans helsta tekjulind, auk þess sem hann þenur raddböndin með Endless Dark sem spilar það sem hann kallar „post hardcore metal“ en þeir eru að taka upp sína aðra hljómplötu um þessar mundir.

GÓÐU GÆJARNIR: Þessir apahausar á He-Man-skrokkum eru bestu skinn, svokallaðir Care-Men.

GÓÐU GÆJARNIR:
Þessir apahausar á He-Man-skrokkum eru bestu skinn, svokallaðir Care-Men.

Related Posts