Segir sæði víkinga vera vinsælt um allan heim:

Eftir að hafa dvalið um eins árs skeið í sveit á Jótlandi hefur breski rithöfundurinn Helen Russell komist að því að Danir eru bestir í heiminum þegar kemur að kynlífi. Hún er raunar svo hrifin af dvöl sinni meðal Dana að hún hefur skrifað bók um efnið.

Í frétt Ekstra Bladet um bók Russell segir að höfundurinn telji sig hafa komist að því að frábært kynlíf Dana sé helsti grundvöllur þess að Danir eru ein hamingjusamasta þjóð heimsins. Raunar segir blaðið að sumt af því sem Russell skrifar um danskt kynlíf gætu ferðamálastofur á borð við Wonderful Copenhagen vel nýtt sér til að lokka ferðamenn til landsins.

Russell telur upp sextán atriði sem gera danskt kynlíf að því besta í heimi. Meðal þess er að Danir séu frjálslyndir, um 90% þeirra telja gott kynlíf mjög mikilvægt og að Danir séu „heitir“ (með þessu síðast talda birtir hún myndir af Mads Mikkelsen og Helenu Christensen).

Á þessu lista má einnig finna atriði eins og að hægt er að ganga um nakin á dönskum ströndum, og raunar hvar sem er ef út í það er farið, Danir eigi met í áhorfi á klámi og að leikskólar passi börnin meðan foreldrarnir stundi kynlíf.

Þá má einnig nefna atriði eins að sæði víkinga sé vinsælt um allan heim, prestar bjóði kynlífsfræðingum í kirkjulegar athafnir og að vinnuvikan sé stutt þannig að góður tími gefst fyrir gleðina.

Related Posts