SÁRSAUKI SELUR!

Davíð Arnar Oddgeirsson (25), viðskiptafræðingur og frumkvöðull:

 

Davíð Arnar er maðurinn á bak við þjónustufyrirtækið Mintsnow sem sérhæfir sig í viðburðum og framleiðslu myndefnis ásamt því að reka brettaskóla. Davíð leggur mikið upp úr því að gera hluti sem hann hefur ástríðu fyrir og hefur gaman af.

 

Uppátækjasamur! „Þetta byrjaði þannig að sama vor og ég byrjaði í skólanum ákvað ég að stofna vörumerkið Mintsnow og samhliða því heimasíðu þar sem hægt væri að finna afþreyingu í formi snjóbrettamyndbanda,“ segir Davíð Arnar. Næst á dagskrá hjá Davíð var að halda viðburði í tengslum við brettaíþróttina og hefur hann haldið bæði keppnir og viðburði sem hafa verið vel sóttir. „Helst ber að nefna viðburð sem haldinn var í Naustinu í mars 2013. Það vorum við Emmsjé Gauti sem ákváðum að halda snjóbretta- og tónlistarviðburð. Upphaflega átti viðburðurinn að vera uppi í fjöllum en þar sem snjóleysið var mikið sáum við okkur ekki fært að halda hann þar. Á þremur dögum náðum við þó að undirbúa viðburðinn í miðbænum. Tónlist var spiluð á staðnum og myndaðist gríðarlega góð stemning yfir daginn. Fjölmiðlar veittu þessu mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem svonalagað er gert.“

Ævintýranleg lokun í Bláfjöllum:

Síðastliðin þrjú ár hefur Davíð haldið svokallað „Mintsnow Summerjam“ við mikinn fögnuð brettaáhugamanna. „Árið 2012 var mikill snjór í Bláfjöllum þegar þeir lokuðu þar og mig langaði mikið til að fá einn aukadag til að renna mér þannig að ég ákvað að heyra í forsvarsmönnum Bláfjalla og bera þetta undir þá. Þeir tóku vel í þetta og viðbrögðin voru vonum framar.  Það sem gerir þennan dag frábrugðinn venjulegum opnunardögum í fjallinu er að það er plötusnúður í miðju fjalli að spila tónlist og snjóbrettagarðurinn er endurgerður af mér og öðrum sem þekkja til hvernig á að setja upp snjóbrettagarða. Einnig er boðið upp á veitingar og verðlaun veitt fyrir góða frammistöðu í fjallinu. Núna hefur þessi viðburður verið haldinn þrisvar og er orðinn fastur liður í að loka fjallinu með stæl.“ Snjóbrettaíþróttin er vaxandi íþrótt og segir Davíð mikið orðið um það að ungir krakkar og unglingar séu að fá bretti í gjöf og viti ekki hvert þeir eigi að snúa sér. „Ég greindi þarna ákveðna þörf fyrir snjóbrettanám, enda ekki mikið um það að foreldrar barnanna geti kennt þeim. Þannig fékk ég þá hugmynd að stofna Brettaskóla Mintsnow og Bláfjalla. Hann hefur verið starfræktur í tvo vetur og gengið vonum framar. Krakkarnir eru mjög fljótir að læra og gaman að geta miðlað þekkingu sinni áfram á komandi brettasnillinga.“ Á sama tíma og Davíð stofnaði brettaskólann ákvað hann að gera prufu af fatalínu sem seldist upp á Netinu á nokkrum vikum. „Þetta var í raun bara einn af þeim hlutum sem ég hafði ákveðið að prófa að gera. Það var gaman að fá smjörþefinn af þessu og öðlast góða reynslu. Hugmyndin er að fara lengra með það ferli og jafnvel stofna fatalínu tengda vörumerki mínu.“

Markmið að fá fólk til að lifa lífinu

Davíð hefur mikið verið að sjá um þáttastjórn og framleiðslu á net- og sjónvarpsþáttum sem hafa verið sýndir við góðan orðstír. „Mér finnst mjög gaman að fá hugmyndir, skrifa upp handrit og fara síðan í það að framkvæma atriði sjálfur. Við búum til myndefni út frá því sem við erum að gera og gefum þau síðan út á Netinu. Það vinsælasta sem við höfum gert voru þættirnir Og hvað? en þeir voru gerðir fyrir Burn-orkudrykkinn og voru 12 netþættir. Við komum þrír að verkefninu, ég, Emmsjé Gauti og hægri hönd mín, Arnar Þór Þórsson, sem sá um upptöku og eftirvinnslu þáttanna.“ Davíð tók einnig upp þátt með Jackass-stjörnunni, Bam Margera, og atvinnuhjólabrettakappanum Rune Glifberg og segir það hafa verið áhugaverða reynslu. „Það var mjög gaman og ég fékk þvílíka útrás fyrir hugmyndaflugið og sköpunargáfuna, enda fengum við að gera það sem við vildum og okkur voru engar skorður settar. „Við fórum ekkert yfir strikið,“ segir Davíð hlæjandi. „Þetta snerist bara um að gera eitthvað skemmtilegt og óhefðbundið, oftar en ekki var það eitthvað sársaukafullt en það er bara eitthvað sem fólki finnst gaman að horfa á, sérstaklega Gauta,“ segir Davíð hlæjandi. „Okkar markmið er ávallt að fá áhorfendur til að standa upp frá tölvuskjánum og fara út og lifa lífinu lifandi.“

Vinnan varð að lokaverkefni

Síðustu önn sína í viðskiptafræði í Háskóla Íslands ákvað Davíð að tengja lokaverkefni sitt við raunverulegar aðstæður og vörumerki sitt. „Það var gaman að sjá hvað ég gat tengt fræðin við raunverulegar aðstæður og lokaverkefnið gagnaðist mér í raun þegar upp var staðið.“ Davíð þurfti þó að taka sér örlitla pásu frá skrifum í febrúar til að ferðast með Arnari, tökumanni sínum, til Kaliforníu og taka upp efni fyrir tvo nýja þætti „Þetta var snilldarferð og eitt það skemmtilegast sem ég hef gert, ég trúi ekki enn að þetta hafi verið vinnutengt. Við ferðuðumst um alla helstu staði Suður-Kaliforníu, upplifðum hluti og hittum skemmtilegt fólk. Allt var tekið upp og sett saman í þætti sem sýndir voru á Bravó og á Netinu. Við fórum meðal annars að  „surfa“ við Huntington Beach, fórum á NBA-leik þar sem við fengum að sitja á fremsta bekk og tókum virkilega fræðandi og áhugavert viðtal við Sigurjón Sighvatsson.“

Óbilandi trú

Það sem var efst í huga Davíðs þegar hann var að leita að vinnu, ásamt námi, var að finna eitthvað sem hann hefði gaman af og fór því af stað að finna leiðir til að fá borgað fyrir það sem honum fannst skemmtilegt að gera og hafði ástríðu fyrir. „Það er algjör snilld og forréttindi, en það gerist ekkert af sjálfu sér, það þarf að fylgja eftir sínum markmiðum og draumum og hafa óbilandi trú á því að hlutirnir geti gengið upp.“ Aðspurður hvað séu næstu skref segir Davíð það vera að halda áfram ferðalaginu sem hann hefur lagt upp í og setja sér ný markmið. „Sumt er náttúrlega fast í sessi, eins og brettaskólinn í vetur og árlegi viðburðurinn í Bláfjöllum í lok hvers vetrar. Síðan verðum við með skemmtilegan viðburð í sumar í Nauthólsvíkinni. Við Arnar ætlum einnig að sækja Secret Solstsice-tónlistarhátíðina í júní og taka upp og framleiða efni fyrir þá. Ég get ekki sagt annað en að ég sé afar spenntur fyrir komandi sumri.“

Related Posts