Var varaforsetaefni John McCain árið 2008:

Sarah Palin fyrrum ríkisstjóri Alaska íhugar að bjóða sig fram sem forsetaefni Repúblikanaflokksins í næstu forsetakosningum. Hún var varaforsetaefni John McCain í forsetakosningunum árið 2008 en þau töpuðu þá fyrir Barack Obama og Joe Biden.

Í fréttum í fjölmiðlum vestanhafs segir að Palin hafi rætt um áhuga sinn á forsetaframboðinu á fundi Repúblikana sem haldinn var í Des Moines í Iowa um helgina. Á fundinum komu saman átta af þeim sem ætla sér að berjast fyrir útnefningu sem forsetaefni Repúblikana ásamt fleira þungaviktarfólki í flokknum.

Washington Post hefur eftir Palin að hún hafi verulegan áhuga á að bjóða fram starfskrafta sína að nýju. Jafnframt kemur fram að hún sé ekki búinn að koma á fót kosningaskrifstofu fyrir komandi prófkjör í flokknum en það fyrsta verður haldið í Iowa eftir tæpt ár.

Palin sagði af sér sem ríkisstjóri Alaska árið 2009 en hefur síðan unnið mikið fyrir hina hægrisinnuðu sjónvarpsstöð Fox.

Related Posts