Sandra Ýr Grétarsdóttir Schmidt (23) er sterk fyrirmynd dóttur sinnar:

HANN ER DÁINN, HANN ER DÁINN – ÖSKRIN SITJA ENN Í MÉR

Lífsins leið er ekki alltaf eintómur dans á rósum, flest okkar verða fyrir áföllum á leiðinni, sumum smávægilegum og öðrum stórum. Stærstu áföllin marka djúp spor og skilja eftir ævilöng ör á sál okkar og hjarta. Sandra Ýr Grétarsdóttir hefur, þó að hún sé ung að árum, orðið fyrir áfalli sem ekkert okkar ætti að þurfa að uppfylla, að missa barn. Hún byrjaði ung að vera með fyrri barnsföður sínum, flutti að heiman og byrjaði að búa. Hún var aðeins 17 ára þegar hún átti sitt fyrsta barn, fallegan dreng sem var skírður Gabríel Reynir. Hún var líka ung þegar hún missti hann, en Gabríel Reynir var tæpra 18 mánaða þegar hann lést. Krufning gaf Söndru og öðrum ættingjum enga skýringu á andláti hans. En í dag er þriggja ára dóttir Söndru, Magdalena Mjöll, sú sem gefur henni kraftinn til að halda áfram og vera sterk fyrirmynd fyrir dóttur sína.
Sjálfstæð „Ég er að vinna í innritun hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli og svo er ég bara með stelpuna mína,“ segir Sandra og brosir. „Ég gæti ekki unnið þessa vinnu, nema ég ætti foreldra mína að,“ segir hún. Foreldrarnir eru Þórdís Daníelsdóttir og Grétar Valur Schmidt. Sandra býr ein með dóttur sinni, Magdalenu Mjöll, sem þriggja ára. Sandra kláraði ekki menntaskólann, þar sem að hún varð ólétt og byrjaði að búa 17 ára gömul. „Ég á eftir eina til tvær annir í sjúkraliðanum sem mig langar að klára og mig langar að vinna við þetta í framtíðinni eða eitthvað með því,“ segir Sandra. Hún er hins vegar lærður einkaþjálfari, en hún kláraði námið síðasta sumar. „Ég tek eina og eina konu í þjálfun þegar ég hef tíma, bæði í Grindavík og í Keflavík,” segir Sandra.

13535639_10154241191014898_1979385739_n

FITT OG FALLEG: Sandra skoraði á sjálfa sig að koma sér í form og uppskar Íslandsmeistaratitil. Þeir eiga pottþétt eftir að verða fleiri.

 

Skorar á sjálfa sig og setur sér markmið


Sandra æfði bæði körfu og fótbolta þegar hún var barn og Daníel Leó, bróðir Söndru, er að spila fótbolta í Alesund í Noregi og Adam Frank, bróðir hennar, spilar í Grindavík. „Pabbi var líka að spila og ég held að ég hafi aldrei spilað leik nema pabbi og mamma hafi komið að horfa á,“ segir Sandra. „Ég hef alltaf verið í kringum íþróttir, byrjaði snemma í körfu og fótbolta, var í unglingalandsliðinu í körfu og úrtökum vegna fótboltans,“ segir Sandra. Vegna meiðsla á sínum tíma varð hún að velja á milli greina og valdi körfuna fram yfir fótboltann, þegar hún varð ófrísk að Gabríel Reyni varð hún hins vegar að hætta. „Mig langar samt aftur í körfuna, það er bara svolítið erfitt þegar ég er ein með barn og í vaktavinnu, það er það sem stoppar mig,“ segir Sandra. Árið 2011 byrjaði hún hins vegar að æfa fitness. „Mér finnst fínt að hafa markmið, vantaði áskorun og að koma mér aftur í form,“ segir Sandra. Söndru líkaði vel við fitnessið og áskorunin skilaði henni Íslandsmeistaratitli í plús 171 flokknum árið 2014. Sandra hefur áhuga á að keppa aftur og ætlaði að keppa næst í nóvember. „En svo er bara búið að vera bilað að gera, þannig að ég hef ekki haft tíma,“ segir Sandra. „Ég vil líka gefa meira til Magdalenu, gefa henni meiri tíma, hún er á þeim aldri,“ segir hún.

 

13555768_10154241140784898_1077844948_o

UNG OG STERK: Sandra velur að halda áfram og vera sterk fyrirmynd fyrir dóttur sína um leið og hún heldur minningu sonar síns á lofti.

13555698_10154241140864898_1769917657_o

13517775_10154241140829898_1972746006_o

BJARGVÆTTURINN: Magdalena Mjöll, 3 ára, er grallari í sér og lík bróður sínum Gabríel Reyni. Sandra vill gefa henni eins mikinn tíma og hún mögulega getur.

Andlátið sem öllu breytti

Fimmtudaginn 21. júní 2012 breyttist líf Söndru í einni svipan og rifjar hún upp daginn sem hún segist muna í smáatriðum. „Ég og kærasti minn, faðir Magdalenu, vorum að ræða kvöldið áður um foreldra sem eru svo óheppnir að missa barn sitt, síðan daginn eftir vakna ég og er að fara á æfingu inn í Keflavík og er á báðum áttum með að fara, en ákveð síðan að drífa mig. Á æfingunni fæ ég kuldahroll yfir mig og líður eins og ég sé að verða veik. Einkaþjálfarinn minn sér að eitthvað er að og segir mér að drífa mig heim,“ segir Sandra.

„Ég fer heim og hringi í pabba Gabríels Reynis og spyr hvort að hann vilji taka hann af því að ég sé að verða veik, en hann neitar. Síðan kem ég heim og kíki á Gabríel Reyni sem sefur enn og ég bara loka og fer inn til mín og legg mig. Síðan vakna ég og finnst skrýtið að Gabríel Reynir sé ekki vaknaður og bið kærasta minn að fara og tékka á honum. Svo heyri ég bara öskur og „hann er dáinn, hann er dáinn,“ segir Sandra.

Sandra hljóp inn í herbergi, tók Gabríel Reyni upp sem var allur orðinn blár, lagði hann á gólfið og byrjaði að blása og hnoða hann. „Í rauninni er panikkastið svo mikið að maður fattar ekki að hringja í 112,“ segir Sandra. Kærastinn tók síðan stjórnina, sagði Söndru að fara og sækja hjálp og hringdi sjálfur á sjúkrabíl, sem leiðbeindu honum í gegnum símann. „Ég öskra fram á gang,“ segir Sandra, en þau bjuggu í fjölbýli. Maðurinn á efri hæðinni kom og aðstoðaði þau. „Ég hringi í pabba og pabbi er varla mínútu að koma yfir,“ segir Sandra. „Og ég man alltaf að ég heyri bara öskur í honum, það situr alltaf geðveikt í mér. Pabbi tekur Gabríel Reyni upp og hleypur með hann út á móti sjúkrabílnum. Ég hringdi líka í mömmu sem var þá stödd í Reykjavík og alla. Afi og amma, bróðir mömmu, systir pabba, bara öll fjölskyldan var komin nokkrum mínútum síðar. „Við erum ótrúlega heilsteypt fjölskylda, erum mjög samrýmd,“ segir Sandra. „Pabbi Gabríels kom líka og ég hljóp út á móti honum og segi bara: Fyrirgefðu fyrirgefðu, við hann,“ segir Sandra.

Henni fannst ferðin upp á sjúkrahús endalaust lengi að líða og var stöðugt að biðja afa sinn að keyra hraðar, „þó að hann hafi verið að keyra hratt og flýta sér,“ segir Sandra. Öllum vegum var lokað á leiðinni svo sjúkrabílinn kæmist sem hraðast yfir, en allt kom fyrir ekki. „Þegar ég kem upp á sjúkrahús, er mér sagt að ekkert hafi verið hægt að gera, að hann hafi verið farinn,“ segir Sandra. Henni var boðið að sjá Gabríel Reyni. „Ég man að ég dett í gólfið, þetta var mjög erfitt.“ Þetta var um hádegisbil og stuttu síðar var Gabríel Reynir fluttur inn í herbergi þar sem búið að koma fyrir kertum. „Ég fæ að halda á honum og að vera inn í herbergi með hann í nokkrar klukkustundir, það var mjög fljótt að líða. Bara eins og tíu mínútur,“ segir Sandra. „Þau gerðu handafar og fótspor fyrir mig og ég fékk að eiga lokk af honum.

Krufning var viku síðar og það fannst engin ástæða fyrir andláti Gabríels Reynis. „Það er  erfitt, af því að maður vill alltaf skýringu. Núna eru komin fjögur ár síðan hann lést og dánardagurinn er alltaf erfiður dagur,“ segir Sandra.

13551043_10154241190939898_1582896452_n

13552780_10154241190914898_1519696466_n 13550951_10154241191024898_339018776_n

Kúplaði sig frá öllu


Sandra er fædd og uppalin í Grindavík, sem er lítið samfélag og atburðir eins og andlát Gabríels Reynis hafa áhrif á fleiri en þá sem næst honum standa. Bærinn lamaðist við andlát hans og bæjarbúar sýndu fjölskyldunni samúð og samkennd. Sandra ákvað hins vegar að kúpla sig frá um tíma. „Ég fór ekkert út í búð og lét varla sjá mig, flutti úr húsinu og fór ekki oftar þangað. Ég flutti í hjólhýsið hjá pabba og mömmu og bjó þar. Á morgnana fór ég út og sat á pallinum hjá þeim, var líka dugleg að fara út og hreyfa mig og fá breik frá öllu,“ segir Sandra, sem fór flesta daga í Sandvík og sat þar á ströndinni. „Þetta sumar bjargaði mér, ég veit ekki hvernig hefði verið ef að það hefði verið vetur.“

13536233_10154241191114898_1217996635_n

LEIÐI GABRÍELS REYNIS: Ástvinir hans hugsa vel um leiði Gabríels og Sandra heimsækir leiði sonar síns oft.

 

Dóttirin er algjör bjargvættur


Í júní 2013 tæpu ári eftir andlát Gabríels Reynis eignaðist Sandra dóttur sína, algjöran sólargeisla sem fékk nafnið Magdalena Mjöll. „Hún er algjör bjargvættur, hún heldur lífi í manni,“ segir Sandra og brosir. Sandra var mjög stressuð á meðgöngunni og var taugaveikluð yfir Magdalenu. „Ég vaknaði á næturnar til að tékka hvort að væri allt í lagi, var með nema á bleyjunni hennar, myndavél, ég var með augun á henni alltaf,“ segir Sandra. Ég tók síðan eitt og eitt út, maður má ekki vera of paranojaður.“ Sandra skildi síðar við föður Magdalenu, en þau deila forræði yfir henni og tekur hann hana þegar hann er í landi, en hann vinnur á frystitogara.

Magdalena á eldri bróður sem er látinn, en faðir hennar sagði Söndru að hún ætti að láta Magdalenu vita að hún ætti bróðir sem væri látinn, Sandra fór því snemma með Magdalenu að leiði Gabríels. „Þau eru mjög svipuð,“ segir Sandra, „og Magdalena er mjög þroskuð miðað við aldur, gömul sál einhvern veginn.“

„Mamma, hann er rosalega leiður, sagði Magdalena síðast við mig þegar við heimsóttum leiði Gabríels,“ segir Sandra. Á heimili þeirra mæðgna er Sandra með hillu þar sem myndir af Gabríel eru ásamt englastyttu og Magdalena sest hjá styttunni og talar til bróðir síns: „Gabríel ég vildi að þú værir á lífi,“ segir Sandra.

13524123_10154241190919898_198813008_o

MINNING UM BRÓÐUR: Magdalena Mjöll elst upp við að eiga eldri bróðir sem er engill og heimsækir leiði hans oft með móður sinni.

13563453_10154241190924898_1142427659_n

 

Fjölskyldan besta baklandið


„Það hefur hjálpað mér mjög mikið að geta talað við fjölskyldu mína en við erum mjög náin og höfum alltaf getað talað saman um allt,“ segir Sandra. Hún leitaði til sálfræðinga eftir andlát Gabríels, en segir þau viðtöl ekkert hafa hjálpað. „Skilaboðin frá þeim voru að ég ætti að drífa mig að læra, en ég var ekki hjá þeim út af því,“ segir hún. Hún á jafnframt marga eldri vini og finnst hún stundum ekki á sama plani og vinir hennar sem eru á hennar aldri.

13548939_10154241140789898_1982675645_o

FALLEGAR MÆÐGUR. Sandra á ekki langt að sækja góð gen, en hún og móðir hennar Þórdís eru líkari systrum en mæðgum.

Henni finnst vanta að það sé stuðningshópur til staðar fyrir foreldra sem misst hafa ung börn. „Það hjálpar mér ekki að fara á fund með foreldrum sem hafa misst barn á meðgöngu, ég kynntist Gabríel, hvernig hann var, hvernig karakter hann var,“ segir Sandra.

Ekki flýta þér of mikið eru þau skilaboð sem Sandra hefur til þeirra sem eru yngri. „Kannski bara af því að maður hefur lifað of hratt, stundum þarf ég að stoppa mig af, ég er bara 23 ára,“ segir hún og brosir.

sandra ýr fitness barnsmissir grindavík

13548877_10154241140894898_680103631_o

13548696_10154241190979898_923518738_o

 

Kveðja til Gabríels:

Fjögur ár. Dagurinn sem ég gleymi aldrei, hjartað tók kipp, og allt fölnaði, svo mikil breyting sársauki umlykur mig, stingur mig og mikill söknuður. Í dag eru komin fjögur ár síðan fallegi engillinn minn fór frá okkur. Þú ert samt alltaf hjá mér og munt ávallt fylgja mér, Þú varst alltaf svo duglegur, stór og sterkur. En þú þurftir að hverfa allt of fljótt frá, til þess að verða engill.

Einhvers staðar varð þörf fyrir þig annars staðar en hjá mér.
Hver dagur er þungur að stíga, en einhvern veginn kemst ég fram úr.
Það líður ekki sú stund að þú ert mér í huga þar sem nánast allt minnir mig á þig.

En ég á yndislegar minningar um okkur saman og þær munu alltaf vera í hjarta mínu.
Það er erfitt að skilja hvað lífið getur verið rosalega flókið.
Og hvað mikið er lagt á suma og það að fá ekki að vita neitt hvað gerðist er alveg ömurlegt. En ég veit að þú ert á góðum stað þar sem er hugsað vel um þig og þér kennt allt sem ég átti eftir að kenna þér. Söknuðurinn er bara svo sár. Guð láti þá góðu og kæru sem ég hef misst dvelja með þér og lýsa mér veginn, vekja vilja og þrótt til að halda áfram.

Mamma saknar þín svo alltof alltof mikið.

 

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts