Dagatalið sýnir miðjan júlí og annasamur mánuður er að baki. Það liggur við að öll þjóðin hafi gert lítið annað í heilan mánuð en að fylgjast með hópi íslenskra stráka sparka í bolta einhvers staðar í útlöndum. Konan á besta aldri sem hefur ekki fylgst með fótbolta í mörg ár, síðan hún var „soccer mom“ þegar sonurinn var að æfa, stóð sig allt í einu að því að sitja heima í sófa, öskra á 40 tommurnar og berja í borðið (engin húsgögn biðu hnekki við áhorfið).

Sökum lítils þanþols Visa-kortsins var ekki farið í víking og haldið til Frakklands en í tvö skipti brá konan sér í Nike-skóna og niður á Arnarhól þar sem hún stóð í mannhafi af allskonar fólki sem átti sameiginlegt áhugamál: fótboltann og að Ísland myndi vinna, einn leik í einu. Eins og við vitum þá unnum við ekki mótið en í staðinn unnum við svo miklu meira, athygli og hjörtu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar.

Hvað stendur því eftir þegar EM er lokið? Jú, við eigum fótboltalið sem er í heimsklassa og við stóðum saman sem ein þjóð í heilan mánuð. Nú er um að gera að halda þessu við, að glata ekki þessari samkennd sem við fundum öll fyrir í heilan mánuð. Samkennd með strákunum okkar og samkenndinni sem við sýndum öðrum þjóðum að við víkingarnir búum yfir í ríkum mæli: bæði í eigin persónu úti í Frakklandi og hér heima, sem kurteis, skemmtileg og dugleg þjóð sem hvatti liðið áfram.

Samkenndin er kraftmikil dyggð sem gerir okkur kleift að samgleðjast öðrum, finna til með þeim og setja okkur í spor annarra: vina, ættingja, nágranna, fólks sem að okkur þykir vænt um eða jafnvel fólks sem við þekkjum ekki og reynum að upplifa það sem það er að ganga í gegnum. Samkennd leyfir okkur að finna að við erum ekki ein á báti, heldur eigum við fólk í kringum okkur sem lætur sér annt um okkur og lætur sig varða um okkur og okkar líf. Samkennd myndar samhljóm, sýnir okkur hvernig við erum öll tengd og færir okkur nær hvert öðru. Sýnum samkennd í orði og verki, bæði í gegnum fótboltann og daglegt líf.

HÚH!

 

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

Ragna Gestsdóttir

13613610_10154316223417422_3189024673488883828_o

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts