Björgvin Halldórsson (65) fer yfir glæstan feril:

Björgvin Halldórsson er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann hefur átt langan og viðburðarríkan feril sem hefur verið tekinn fyrir í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Á sýningunni „Þó líði ár og öld“ er farið ítarlega yfir feril Björgvins og þar má finna fjölmarga fallega og áhugaverða muni frá þessum magnaða tónlistarferli hans.

Rokkari „Hugmyndin að þessu kom frá þeim í Hljómahöllinni, Rokksafni Íslands. Þeir halda þarna úti alveg æðislegum sýningum og hafa verið með sérsýningar eins og þessa. Páll Óskar var á undan með sýningu og ég var beðinn um að taka við og sló til því ég á svo mikið af munum sem hægt er að setja upp í sýningu. Þá ekki bara frá sjálfum mér heldur líka frá þeim hljómsveitum og samstarfsfólki  sem ég hef unnið með. Ég er alveg forfallinn safnari og grúskari og á marga hluti frá ferlinum,“ segir Björgvin.

dsc04368

ÉG GEF ÞÉR ALLT MITT LÍF: Björgvin og fjölskyldan sem er honum kær, eiginkonan, Ragnheiður Björk Reynisdóttir, og sonur þeirra, Krummi, sem einnig hefur fetað tónlistarveginn eins og faðir hans og kærasta hans, Linnea Hellström.

Ítarleg sýning

Sýningin „Þó líði ár og öld“ er hin glæsilegasta og þar má finna fjöldann allan af munum frá ferli Björgvins og eflaust eitt glæsilegasta gítarsafn landsins.

„Það er margt sem stendur upp úr þegar maður lítur á allan þennan feril. Sýningin gerir honum mjög góð skil og er skemmtileg. Þarna er hluti af gítarsafninu mínu, fólk getur komið í karaókí og sungið með mér og svo er hægt að hljóðblanda lögin mín. Þarna eru líka margir iPad-ar þar sem hægt er að hlusta á mig fara í gegnum ferilinn og segja frá hinum ýmsu áföngum,“ segir Björgvin.

„Þarna eru ótrúlega margir munir sem að tengjast mér. Þetta er svakalega flott sýning þótt ég segi sjálfur frá. Hún er mjög ítarleg og það er margt sem stendur upp úr og þetta hefur bara verið alveg ótrúlega skemmtilegt. Það er frábært að hafa fengið tækifæri til að vinna með mörgum af bestu tónlistarmönnum landsins og geta enn verið að. Núna er ég til dæmis að setja upp Jólagesti Björgvins í höllinni og þar er ég heppinn að fá allt þetta fólk til að vera með mér. Það er ótrúleg forréttindi að fá að vinna með rjómanum af tónlistarbransanum hér á landi.“

Merkilegir gripir

Það munu eflaust flestir standa lengi fyrir framan gítarsafn Björgvins en þar má finna fjölmarga fallega gripi.

„Seinast þegar ég taldi þá átti ég um 40-50 gítara. Þetta eru allt sjaldgæfir gítarar og merkilegir gripir. Ég byrjaði að safna gíturum í gamla daga og hef alltaf verið hrifinn af þessu hljóðfæri. Þarna er alveg ofsalega mikið af fallegum og vel smíðuðum gíturum,“ segir Björgvin sem ætlar þó að hrista upp í safninu.

„Ég hef verið að reyna að losa mig við þá sem mér finnst ekki mjög merkilegir og er að reyna að uppfæra safnið.“

Björgvin segir það erfitt verk að velja uppáhaldsgítarinn þó þeir séu nokkrir sem komi til greina.

„Það er einn þarna, hvítur gítar sem ég kom einu sinni fram með í sjónvarpi og söng Loksins ég fann þig, sem stendur upp úr. Þetta var ekki mjög dýr gítar í þá daga en þessi er einn af þeim sem ég held mikið upp á. Þarna má líka finna til dæmis Epiphone Casino 1966, alveg orginal eins og George Harrison og John Lennon úr Bítlunum notuðu. Þetta er þó aðeins hluti af gíturunum mínum því ég er með um 10-15 stykki heima hjá mér og í upptökuverinu,“ segir Björgvin.

dsc04286

DAGAR KOMA OG FARA: Tíminn líður og dagarnir hratt með, en veglegt gítarsafn Björgvins er til minningar um söguna og feril hans sem er búinn að vera bæði langur og glæsilegur og enn á Björgvin nóg inni og getur á sig fleiri gíturum og tónlistarperlum bætt.

Fyllist stolti

Björgvin er ánægður með sýninguna og segir hana vel heppnaða. Hann segir sýninguna koma sér á óvart og er þakklátur fyrir þá hluti sem hann hefur upplifað og stoltur af því sem hann hefur áorkað.

„Það rennur upp fyrir manni ljós að þegar maður safnar bæði minningum, myndum, plötum og gullplötum þá er maður hálfhissa á því hvað maður er búinn að gera mikið og er enn þá í fullu fjöri. Mér finnst sérstaklega bara skemmtilegt að sjá þetta svona samankomið og það gefur manni meiri innsýn inn í ferilinn. Þó að maður ætti kannski ekki að segja þetta þá er ég hálfgerður safngripur með hinum safngripunum,“ segir Björgvin og hlær.

Eins og Björgvin tók áður fram er hann mikill safnari.

„Við erum nokkrir í bransanum sem erum miklir grúskarar og safnarar og erum duglegir að grafa upp hluti frá ferlinum. Ég á til dæmis öll plaggötin mín og þau má sjá á sýningunni,“ segir Björgvin sem fyllist stolti þegar hann lítur yfir ferilinn.

„Ég fyllist miklu stolti og skammast mín ekki fyrir neitt. En það er eins með þetta og annað að það er ekki magnið heldur gæðin sem skipta máli og það eru alveg nokkur lög þarna inn á milli sem hefði mátt sleppa eða breyta eins og gengur og gerist. Fyrst og fremst er ég alveg gífurlega þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með öllu þessu frábæra fólki því svona feril býr maður ekki til einn.“

dsc04467

TÆTUM OG TRYLLUM: Söngvararnir Eyjólfur Kristjánsson, Björgvin Halldórsson og Stefán Hilmarsson eru þrír af okkar ástsælustu söngvurum, þeir hafa allir átt í samstarfi í gegnum árin og hafa séð um að tæta og trylla tónlistaraðdáendur á tónleikum og vinsældalistum.

dsc04340

YOU BELONG TO ME: Útvarpsmaðurinn ástsæli, Ólafur Páll Gunnarsson, mætti með eiginkonuna, Stellu Maríu Sigurðardóttur, og soninn, Sturlaug Hrafn.

dsc04322

MARÍA VISSIR ÞÚ: Erlingur Björnsson, hefur verið kallaður gleymdi Hljómamaðurinn, en hann söng inn á plötu Trúbrots sem tekin var upp í London. María Baldursdóttir, ekkja Rúnar Júlíussonar tónlistarmanns, og Guðmundur Ingólfsson, kallaður Papa rokk. Hann stofnaði Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar á sínum tíma, réð til sín ungan mann og rokkaði hann til, sá maður er Gunnar Þórðarson.

dsc04318

LÍFSDANSINN: Tvenn stórglæsileg hjón sem stigið hafa lífsdansinn saman; Margrét Björnsdóttir og Baldvin Jónsson og Jónína Guðjónsdóttir og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

dsc04312

ÞÚ OG ÉG: Hjónin Björn Thoroddsen gítarleikari og Elín Margrét Erlingsdóttir voru mætt eldhress saman og leist vel á sýninguna.

dsc04292

HÖFÐINGINN: Sýningarstjórinn og hönnuður sýningarinnar, Björn Georg Björnsson, og eiginkona hans, Þóra Jónsdóttir. Björn og Björgvin eru góðir og gamlir vinir og því kom enginn annar til greina til að gera sýninguna veglega.

dsc04466

MIG DREYMIR: Sturlaugur Hrafn, sonur Óla Palla og Stellu, er aðeins sjö ára en þrátt fyrir ungan aldur var hann hvergi banginn og skellti sér við trommusettið. Hann dreymir kannski um að eiga eiga farsælan trommuleikaraferil.

dsc04435

SÖNN ÁST: Stefán Hilmarsson söngvari og eiginkona hans, Anna Björk Birgisdóttir sem heillaði okkur öll og Stefán í útvarpinu í den voru mætt eldhress á sýninguna. Hér eiga þau gott spjall við Ragnheiði Björk, eiginkonu Björgvins.

dsc04376

MINNING: María og synir hennar og Rúnars, Júlíus Freyr og Baldur Þórir. Báðir hafa þeir lagt tónlistina fyrir sig líkt og faðir þeirra.

dsc04291

TÍMANNA TÁKN: Fötin hans Björgvins bera viðkomandi tíðaranda vel vitni. Svo sannarlega tákn um tískustrauma á hverju tímabili.

Séð og Heyrt fílar Bó.

 

 

Related Posts