Eins og við vitum flest er best að lifa heilsusamlegu lífi allan ársins hring. Það koma samt alltaf tímabil, til dæmis yfir hátíðarnar, þar sem við sveigjum af beinu brautinni og leyfum okkur aðeins meira sukk. Þá þurfum við stundum að endurræsa kerfið til að komast aftur í réttan farveg.

Margir vilja meina að besta leiðin til að gera það sé að fasta. Við höfum jú flest nægan forða í líkamanum til að geta lifað án matar í nokkra daga, svo lengi sem við fáum nóg af vatni. Það er samt lítið spennandi að svelta sig algjörlega og því getur verið gott að sleppa eingöngu fastri fæðu og fara á safakúr í nokkra daga. Ef rétt er farið að þá fær líkaminn nóg af næringarefnum og orkugjöfum úr söfunum.

 

 

Skipuleggðu þig vel

Líkt og með aðra tímabundna kúra er mjög mikilvægt að skipuleggja sig vel og vera andlega undirbúin. Taktu ákvörðun sem þú ert tilbúin að standa við: Hversu marga daga ætlarðu að vera á kúrnum og hvernig vilt þú haga honum, ætlarðu að kaupa tilbúinn safakúr eða ætlarðu að pressa og blanda safana sjálf?

Að fara á svona kúr reynir ekki síður á hugann en á líkamann, því það er sjaldnast líkaminn sem kallar á sætindi og óhollustu. Mikilvægt er að byrja á að losa sig við allar freistingar úr eldhússkápunum því þær munu bara gera þér lífið leitt. Eins er gott að skipuleggja tíma þinn þannig að þú þurfir ekki að fara í kökuboð eða saumaklúbba á meðan á kúrnum stendur, nema þú sért með þeim mun meiri viljastyrk.

 

juiceMeiri næring, meira bragð

Viljir þú útbúa safana sjálf heima þarftu að eiga réttu tækin, annaðhvort safapressu eða blandara. Gott er að ákveða nokkrar uppskriftir, gera innkaupalista og  kaupa meirihlutann inn á einu bretti því það getur verið tímafrekt og dýrt að þurfa að fara út í búð á hverjum degi. Gott er að miða við að drekka fimm til sex safaskammta á dag, hver skammtur er um hálfur lítri.

Til að tryggja að þú fáir sem mesta næringu út úr söfunum þarftu að passa að nota fjölbreytt úrval af bæði grænmeti og ávöxtum; meira af grænmeti, minna af ávöxtum. Einnig er gott að hafa suma drykkina hristinga sem gerðir eru í blandara til að halda í trefjar sem gera þér gott og hjálpa þér að halda meltingunni gangandi.

Það er líka mikilvægt að hugsa vel út í bragðið því ef safarnir eru bragðgóðir verða dagarnir skemmtilegri og safakúrinn auðveldari. Hægt er að bragðbæta safana með ýmsum kryddjurtum, til dæmis myntu, kóríander, steinselju eða engifer. Einnig getur smásítrónusafi gert gæfumuninn.

 

Related Posts