Frank Sinatra (1915-1998) hefði orðið 100 ára 2015:

 

Hjartaknúsarinn, drykkjuboltinn, erkitöffarinn og söngvarinn Frank Sinatra fæddist 12. desember 1915 og hefði því orðið 100 ára í lok þessa árs, en hann lést árið 1998. Geir Ólafsson söngvari er einhver ákafasti aðdáandi Sinatra á Íslandi og kann ýmsar sögur af kappanum.

 

LEIKARI: Sinatra sýndi einnig góð tilþrif í kvikmyndaleik. Hér er hann í hasar í Von Ryan´s Express.

Aðalgæinn Þau eru ófá lögin sem Frank Sinatra gerði ódauðleg á ferli sínum og þau munu halda minningu hans á lofti um ókomna tíð. The Girl Next Door, Fly Me to the Moon, I Get a Kick Out of You, I’ve Got You Under My Skin, Love and Marriage, Strangers in the Night, Summer Wind, That’s Life, Somethin’ Stupid, með dóttur sinni Nancy Sinatra, My Wa og auðvitað New York, New York.

Sinatra var einnig liðtækur kvikmyndaleikari og eftir nokkuð mögur ár tók ferill hans kipp á ný eftir að hann hlaut Óskarsverðlaunin sem besti aukaleikarinn í From Here to Eternity 1953. Aðrar þekktar myndir með honum eru The Man with the Golden Arm, The Manchurian Candidate og söngleikirnir On the Town, Guys and Dolls, High Society og Pal Joey.

 

Undir miklum árhrifum

geir

AÐDÁANDINN: Geir Ólafsson er ákafur aðdáandi Sinatra og var undir miklum áhrifum frá honum, ekki síst framan af.

Geir Ólafsson hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á Sinatra en segist eiga erfitt með að nefna eitt uppáhaldslag með hetjunni sinni en segir One for My Baby (and One More for the Road) vera þar á meðal. „Þetta er svona dæmigert Sinatra-lag. Hann var svo mikill túlkandi og fékk fólk til þess að trúa því sem hann var að syngja um í flestum lögum sínum.“

Geir var þrettán ára þegar hann heillaðist af Sinatra og var þá mjög á skjön við jafnaldra sína. „Ég var ekkert í Wham! og Duran Duran og hlustaði bara á Frank Sinatra. Ég var þrettán ára þegar pabbi gaf mér „best of “ plötuna New York, New York og sagði mér að ef ég vildi einhvern tíma verða söngvari þá ætti ég að hlusta á hann þennan. Það er alveg á hreinu að hann hafði strax mikil áhrif á mig í tónlistinni og mér fannst hann gríðarlega töff.“

Og Geir segir Frank hafa farið létt með að standa undir töffaraímyndinni. „Hann stendur undir þessu öllu. Heldur betur. Það skiptir líka máli að hann var góður maður, sinnti þeim sem minna máttu sín í samfélaginu og stofnaði meira að segja barnaspítala.“ Hvað þrálátan orðróm um mafíutengsl Sinatra varðar hefur Geir einfaldlega þetta að segja: „Mafíutengingin gerði hann bara meira kúl.“

 

Ljúfur drykkjubolti

GENGIÐ: Dean Martin, Sammy Davis og Sinatra djömmuðu grimmt og voru alræmdir á þeim vettvangi, enda svo sannarlega á heimavelli.

Don Randy, sem Geir hefur starfað mikið með, ekki síst í Los Angeles, þekkti Sinatra vel og hefur sagt honum ófáar sögur af kempunni. „Don átti klúbbinn Baked Potatoe, sem er einn frægasti djassklúbburinn í Los Angeles. Árið 1979 voru Frank, Sammy Davis og Dean Martin að spila saman í Las Vegas og flugu þaðan til LA. Á flugvellinum hringdi Frank í Don og sagðist vera með smáfund og spurði hvort hann mætti ekki halda hann á staðnum. Hann skyldi svo bara sjá um að loka þegar þeir væru búnir. Þeir mættu svo í fylgd þriggja kvenna, meðal annars Lizu Minelli. Don lét Frank fá lyklana að staðnum og bað hann um að skilja þá eftir í póstkassanum þegar þeir færu. Don kom svo daginn eftir og sá að það hafði gengið ansi mikið á vínbirgðirnar en rak svo augun í brúnan bréfpoka. Þar var miði sem stóð á: „Thank you,“ og 10.000 dollarar sem hann sagði að hefðu alveg bjargað rekstrinum næstu mánuðina.“ Sannkallaður herramaður, Frank Sinatra.

 

Gríðarlegar vinsældir

Frank Sinatra er einn söluhæsti tónlistarmaður allra tíma og hefur selt yfir 150 milljón plötur út um allan heim. Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, veitti Sinatra Frelsisorðu forsetans árið 1985, auk þess sem hann fékk heiðursmerki Bandaríkjaþings 1997. Á ferli sínum tók Sinatra við ellefu Grammy-verðlaunum, þar á meðal viðurkenningu fyrir ævistarf sitt í tónlist. Einungis Elvis Presley, Bítlarnir og Michael Jackson hafa toppað Sinatra í vinsældum.

Related Posts