María Ólafsdóttir (21) á framtíðina fyrir sér:

Sagan um Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren er vel þekkt úti um allan heim og sýnir nú Leikfélag Mosfellssveitar söngleik um þessa uppátækjasömu stelpu. Söngleikurinn hefur svo sannarlega slegið í gegn og hefur verið uppselt á nær allar sýningarnar.

Ronja Ræningjadóttir Ronja Ræningjadóttir

Hæfileikarík „Ég hef haft áhuga á leik og söng síðan ég man eftir mér,“ segir María Ólafsdóttir sem fer með hlutverk Ronju í söngleiknum. María er í leiklistar- og tónlistarkennaranámi við Háskóla Íslands og skemmtir sér konunglega að eigin sögn. „Það er mjög gaman í skólanum og forréttindi að fá að læra eitthvað sem maður hefur svona mikinn áhuga á. Ég hef verið viðriðin leiklist frá unga aldri. Meðal þess sem ég hef leikið í er Söngvaseiður og Skilaboðaskjóðan. Síðan lék ég líka Michael Jackson þegar hann var lítill á „tribute“-tónleikum á Broadway.“

 

Frá Blönduósi í Mosó

María útskrifaðist úr Verslunarskólanum síðasta vor og var dugleg að taka þátt í leiklistarlífinu. „Ég byrjaði að fara á leiklistarnámskeið í bæjarleikhúsinu í Mosó og síðan þá hef ég tekið þátt í leiklistinni í þeim skólum sem ég hef verið í.“

María er fædd á Blönduósi en hefur búið í Mosfellsbæ síðustu ár. Það var því vel við hæfi að hún myndi skella sér í prufu hjá Leikfélagi Mosfellssveitar þegar hlutverk Ronju var auglýst. „Ég er mjög fegin að hafa skráð mig því þetta er búið að vera einstök reynsla. Þetta er ótrúlega samrýmdur hópur og við erum orðin eins og fjölskylda. Það er líka búið að vera mjög gaman að vinna með Agnesi Wild leikstjóra. Hún er nýkomin úr leiklistarnámi í London og er mjög hæfileikarík.“

Mikil eftirspurn

Mikil eftirspurn hefur verið í miða á söngleikinn og hefur verið uppselt á nær allar sýningar. „Viðbrögðin hafa verið frábær. Ætlunin var að hafa bara sýningar á sunnudögum en þar sem aðsóknin hefur verið svona mikil þá höfum við ákveðið að bæta við sýningum á laugardögum líka. Við erum skráð með sýningar fram í desember en ef aðsóknin heldur áfram að vera svona góð þá gæti vel verið að við lengjum þetta,“ segir Hildur og brosir.

Með Steinda Jr.

Áhorfendur Stöðvar 2 mega búast við að sjá Hildi á skjánum í seríunni Hreinn skjöldur eftir Steinda Jr. „Það var mjög gaman að leika í þáttunum með Steinda hann er náttúrlega algjör snillingur. Síðan er ég líka búin að vera syngja inn á nokkur lög nýlega og það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því,“ segir þessi duglega stelpa.

Related Posts