Kvikmyndir – Rómantískar myndir:

Það er við hæfi á Konudaginn að setjast niður með ástinni sinni, kúra sig undir teppi og skella rómantískri bíómynd í tækið. Hér eru nokkrar frábærar tillögur.

Notting Hill
rómantískar kvikmyndir
Margir hafa eflaust leitt hugann að því hvernig væri að eiga í ástarsambandi við stórstjörnu. Notting Hill fjallar einmitt um eitt slíkt samband. Seinheppni bóksalinn William Thacker trúir varla eigin augum þegar Anna Scott, fegursta og vinsælasta kvikmyndaleikkona heims, kemur inn í búðina hans. Þau hefja óvænt samband og William kemst að því að það er ekki tekið út með sældinni að vera með svo frægri konu. Klassísk, bresk, rómantísk gamanmynd sem sýnir hve ástin getur verið bæði fyndin og flókin.

The Notebookrómantískar kvikmyndir

The Notebook er klassísk strákur-hittir-stelpu-ástarsaga. Allie og Noah hittast árið 1940. Þau verða ástfangin en hann þykir ekki nógu góður fyrir hana og leiðir skilja. Þau hittast aftur 1947 og þá kemst sambandið á næsta stig en það eru enn ýmsar hindranir í veginum. Fullkomin bíómynd fyrir þá sem vilja alvöru væmna grenjumynd og ekki skemmir fyrir að hinn myndarlegi Ryan Gosling er í aðalhlutverki.

Annie Hallrómantískar kvikmyndir

Klassísk Woody Allen-ástarævintýri með nóg af taugaveiklun og kaldhæðni. Myndin segir frá sambandi Alvy Singers, taugatrekkts uppistandara í New York, og Annie Hall, álíka móðursjúkri. Fylgst er með sambandi þeirra allt frá því að þau hittast fyrst, í gegnum hveitibrauðsdagana á meðan allt leikur í lyndi og síðar þegar þau byrja að rífast eins og hundur og köttur. Margir vilja meina að myndin sé einskonar sjálfsskoðun á ástalífi fólks á áttunda áratug síðustu aldar í New York.

Kissing Jessica Steinrómantískar kvikmyndir

Kissing Jessica Stein er rómantísk gamanmynd með lesbísku ívafi. Sagan fjallar um samband þeirra Jessicu og Helen en hingað til hafa þær báðar talist gagnkynhneigðar; önnur reynt allt í kynlífi nema að sofa hjá konu og vill því prófa það en hin á í erfiðleikum með að finna karlmann sem henni líkar við. Þær ákveða því að láta reyna á samband við sama kyn en komast fljótt að því að sambandið verður ekkert auðveldara með tveimur konum.

When Harry Met Sally
rómantískar kvikmyndir
Mynd sem leitast við að svara hinni eilífu spurningu: Geta karl og kona verið bara vinir án þess að kynlíf flæki málið? Harry og Sally hittast fyrst þegar hann fær far hjá henni eftir að þau útskrifast úr Háskólanum í Chicago. Í myndinni er farið í gegnum líf þeirra beggja og fylgst með leit þeirra að ástinni, sem oft á tíðum gengur ekki vel, en af og til rekast þau hvort á annað.

 

Texti: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts