Steve Wynwood hefur áhuga á að renna fyrir lax hérlendis:

Heyrst hefur að blús- og rokkgoðsögnin Steve Winwood hafi áhuga á að koma til Íslands í sumar til að renna fyrir lax. Hugsanlega mun hann koma fram með íslenskri hljómsveit fyrir eða eftir laxveiðina.

Ekki er ólíklegt að Winwood hafi fengið ábendingu frá Eric Clapton um hve dásamlegt geti verið að renna fyrir lax á Íslandi. Þeir gerðu garðinn frægan þegar þeir léku saman í ofurhljómsveitinni Blind Faith árið 1969 ásamt þeim Ginger Baker og Ric Grech.

Winwood er mjög fjölhæfur tónlistarmaður sem getur leikið á fjölda hljóðfæra og hann er mjög góðurr söngvari og lagasmiður. Fyrsta topplag sitt, Keep On Running, flutti hann aðeins 16 ára gamall með hljómsveitinni Spencer Davis Group snemma á sjöunda áratugnum. Síðar stofnaði Winwood hljómsveitina Traffic og var viðloðandi hana ásamt öðrum verkefnum, þar á meðal Blind Faith,  þar til sólóferill hans hófst í lok áttunda áratugarins.

Winwood sem orðinn er 67 ára gamall en gefur ekkert eftir í tónlistinni. Síðasta plata hans kom út árið 2008 en árið 2013 fór hann í tónlistarferðalag um Bandaríkin með Rod Stewart og í fyrra var hann á tónleikaferðalagi með Tom Petty and  the Heartbreakers.

Winwood var tekinn inn í frægðarhöll rokksins árið 2004 (Rock and Roll Hall of Fame). Á lista tímaritsins Rolling Stone árið 2008 yfir bestu söngvara sögunnar var Winwood í 33. sætinu.

Related Posts