Ég fór í sund um daginn. Ekkert merkilegt svo sem en ég sat í heita pottinum og hlustaði á tvo eldri menn ræða málin. Þeir tæmdu viskubrunna sína og ég hlustaði með miklum áhuga á þessa menn ræða um það hvað væri að í landinu. Það var þó eitt sem kom mér á óvart. Þessir menn sem hafa lifað tímanna tvenna og voru óendanleg uppspretta visku töluðu ekkert um það hvernig ætti að laga hlutina.

„Verðtryggingin, hún hefur bara alltaf verið fyrir,“ sagði annar og hinn tók undir það. „Og hvað á svo að gera við okkur?  Við þurfum bara að lifa við þessar aðstæður og engu verður breytt,“ sagði hinn og þarna langaði mig að spyrja þá hvernig ættu að breyta þessu öllu. Ég sat á mér.

Þeir félagar ræddu um allt milli himins og jarðar, stjórnmál, heilbrigðismál, bankamennina og að sjálfsögðu um hrunið. Það má auðvitað ekki gleyma því.

Svona héldu þeir áfram í góðar tíu mínútur en aldrei barst tal þeirra að hugsanlegri lausn við einhverjum af þessum vandamálum. Það var ekki fyrr en ég varð orðinn frekar þreyttur á að hlusta á röflið í þeim að ég blandaði mér í umræðuna og spurði þá út í íþróttir. Mig minnir meira að segja að ég hafi komið veðrinu að, það klikkar aldrei.

„Þetta boltaspark og -kast er bara fyrir vitleysinga. Fullorðnir karlmenn að hlaupa um á stuttbuxum og elta bolta, síðan getum við ekki neitt!!! Komumst ekki einu sinni upp úr riðlinum á þessu EM móti,“ sagði annar og jú, það klikkaði ekki að hinn maðurinn var sammála.

Nú þurfti ég að draga fram öll vopn í vopnabúrinu mínu því ég skyldi sko fá þessa menn til að brosa, það á bara ekki að vera hægt að röfla svona mikið.

Ég ákvað að spyrja þá hvort að þeir ættu einhver barnabörn. Þá hlakkaði í mínum mönnum. Jú barnabörn áttu þeir, annar átta stykki og hinn fimm.

Barnabörnin voru sko góð. Krakkar á öllum aldri og flest af þeim í íþróttum. Það er þó annað þegar barnabörnin þín eru í íþróttum en þegar einhverjir „kallar“ hlaupa um og fá borgað fyrir það. Barnabörnin þeirra voru sko í fótbolta, handbolta, körfubolta og eitt æfði meira að segja á fiðlu.

Ég komst að því þarna að þessir gömlu karlar voru ekkert bitrir gamlir menn heldur einfaldlega karlar sem hafa ákveðið það með sér að í pottinum skuli röflað, það er sko staðurinn til að létta á sér og rífa kjaft. Því ekki gera þeir það fyrir framan barnabörnin sem veita þeim ómælda hamingju og fylla þá stolti í hvert sinn sem þeir heyra nafn þeirra. Þessi afar finna sér sinn griðarstað, í þessu tilfelli 44 gráðu heiti potturinn í Laugardalslaug, til að röfla og það finnst mér fallegt. Mér finnst að við ættum öll finna okkar „röfl-heitapott“ og skila áhyggjum okkar út í klórinn.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts