Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri DV á margar skemmtilegar sögur upp í erminni. Hann er eldklár, harðduglegur, ljúfur og góður penni og svarar spurningum vikunnar. Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson.

 

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN?

Soðinn þorskur, kartöflur og fiskur eða selkjöt og kríuegg í eftirrétt.

 

BRENNDUR EÐA GRAFINN?

Grafinn. Lítið hylki fullt af ösku gefur ættingjum fátæklega mynd af þér og fyllir þá tómleikatilfinningu.

 

MÉR FINNST GAMAN AÐ …

Ferðast, læra nýja hluti og kynnast nýju fólki. Vinna með félögum og vinum á Vefpressunni. SKÚBBA. Segja sögur fólks sem ætti annars erfitt með að láta í sér heyra eða fá réttlætinu fullnægt.

 

HVAÐ FÆRÐU ÞÉR Á PYLSUNA?

Voðalega eru þetta persónulegar spurningar. Ég neita að svara svona dónaskap.

 

FACEBOOK EÐA TWITTER?

Ævisögurnar eru á Facebook, örsögurnar eða augnablik úr lífinu á Twitter. Ævisögurnar eru betra fréttaefni.

 

HVAR LÆTURÐU KLIPPA ÞIG?

Ritstjórar DV láta klippa sig á Salonwe. Karl Berndsen klippti mig síðast og hann er með tíu prósent sjón. „Þorir þú að láta blindan mann klippa þig?“ spurði Kalli. „Þú mátt klippa mig ef þú kemur í forsíðuviðtal hjá mér,“ svaraði ég á móti. Einn besti díll ævi minnar.

 

HVAÐ GERIRÐU MILLI 5 OG 7 Á DAGINN?

Ég vinn á milli 5-7 á daginn en það stendur til að breyta því og fara í ræktina og eitthvað slíkt. Ekki mjög bjartsýnn.

 

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM?

Tvö þúsund krónur, þrjú tyggjó, íbúfen. Þú ert númer 36 í röðinni hjá IKEA og kvittun frá IKEA. Mæli með plokkfisknum. Þetta svar var sponserað af IKEA.

 

BJÓR EÐA HVÍTVÍN?

Bjór með félögum, hvítvín með kærustunni.

 

UPPÁHALDSÚTVARPSMAÐUR?

Pétur á Útvarpi Sögu. Opnaði á þá stöð fyrir mörgum árum og þar spurði innhringjandi Pétur: „Er ég í beinni útsendingu eða er þetta endurtekinn þáttur?“ Hápunktur íslenskrar útvarpssögu.

 

HVER STJÓRNAR SJÓNVARPSFJARSTÝRINGUNNI Á HEIMILINU?

Það er engin sjónvarpsfjarstýring. There is no spoon.

 

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN?

Í húsi falið á milli hárra trjáa undir fjalli í rökkvuðu herbergi. Allt í lagi bara.

 

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR?

I did it my way.

 

HVER ER DRAUMABÍLLINN?

Mustang 68 árgerð.

GÓÐUR: Kristjón svarar spurningum vikunnar.

GÓÐUR: Kristjón svarar spurningum vikunnar.

 

FYRSTA STARFIÐ?

Tívolíið í Hveragerði. Stjórnaði klessubílum, þeytuvindu og kolkrabba. Ég var 15 ára og ótrúlegt að aðeins ein manneskja hafi á þessum árum flogið úr kolkrabbanum á ferð.

 

FERÐU Í KIRKJU?

Fór í kirkju einu sinni 28 daga í röð og ræddi við Guð og eftir það samtal kom í ljós að við áttum ekki samleið.

 

LANDSPÍTALI VIÐ HRINGBRAUT?

Væri mjög gott í þessu nýja góðæri sem er með nokkuð traustar undirstoðir að það væri einmitt spítali fyrir alla landsmenn við Hringbraut.

 

FALLEGASTI STAÐUR Á LANDINU?

Drangar á Ströndum. Þar er ekki farsímasamband, rafmagn eða bílar. Þar ríkir tími náttúrunnar, sá tími er tekur rekaviðinn að reka að landi, selinn að skjóta upp kollinum og sólina að setjast. Þar vakna menn þegar þeir eru búnir að sofa.

 

KJÖT EÐA FISKUR?

Fiskur.

 

HVAÐA OFURKRAFT VÆRIR ÞÚ TIL Í AÐ VERA MEÐ?

Ósýnilegur eða getað teleportað.

 

GIST Í FANGAKLEFA?

Þetta er bara einhver misskilningur.

 

STURTA EÐA BAÐ?

Sturta, þá sturta þar sem manni væri  alltaf kalt á annarri öxlinni og þyrfti ekki að dansa undir.

 

HVAÐA LEYNDA HÆFILEIKA HEFUR ÞÚ?

Það veit ég ekki, ég ætla að spyrja Auði. Augnablik.

 

Í HVERJU FINNST ÞÉR BEST AÐ SOFA?

Nærbuxum.

 

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ?

Ég byrjaði mjög seint að taka góðar ákvarðanir, en í seinnitíð myndi ég segja að hafa fyrir rúmum fjórum árum sagt já þegar Björn Ingi Hrafnsson og Arnar Ægisson buðu mér vinnu sem blaðamanni á Pressunni.

 

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR?

Þegar ég strauk að heiman fljótlega eftir að faðir minn hóf sambúð með fóstru minni og ég átti allt í einu að byrja að raða skóm og vaska upp eftir að hafa verið dekraður og fengið kakó í rúmið hjá ömmu.

 

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST?

Man það ekki, en las fyrir margt löngu bók sem heitir Uppvöxtur Litla trés. Sú bók minnti mig á afa og ömmu á Ströndum þar sem ég ólst upp og er leiðin heim þegar ég glugga í hana. Kemst næst því að gráta yfir list þegar ég les hana.

 

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU?

Ég var með fóbíu fyrir geitungum en losnaði við hana á Spáni. Þú ert miklu stærri en þessar flugur og besta ráðið er að vera fyrri til og berja þá. Ég hef aldrei verið stunginn.

 

FURÐULEGASTI MATUR SEM ÞÚ HEFUR BORÐAÐ?

Ætli kengúra sé ekki það einkennilegasta en jafnframt það besta sem ég hef borðað.

 

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í?

Móðir mín kynntist götulistamanni frá Jamíka í Central Park í New York. Hún tók hann með sér til Íslands. Mamma var nokkuð glöð og ánægð með með lífið og nýja kærastann. Hann sagði mér að hann ætti hvergi heima. Er hann kannski útigangsmaður hugsaði ég, en hann hann eldaði góðan mat og bjó til litríka hatta. Þau sváfu saman á efri í hæðinni í gamla herberginu mínu. Ég svaf á neðri hæðinni á meðan ég var í stuttri heimsókn á Íslandi og fékk að gista á Framnesveginum. Eitt kvöld kom ég blekaður heim. Ég klæddi mig úr hverri spjör og fór svo á klósettið á efri hæðinni. Síðan gekk ég af vana beint inn í gamla herbergið mitt og lagðist nakinn í rúmið á milli móður minnar og hattagerðarmanns frá New York. Ég lá grafkyrr og hugsaði: Hvernig kem ég mér út úr þessu. Ég horfði stjarfur upp í loftið og bað til guðs (lofaði að trúa á hann líka) að láta mömmu ekki vakna. Mamma vaknaði tveimur sekúndum síðar og sagði: „Kristjón, hvað ertu að gera?“ Ekkert svaraði ég og stóð upp. „Kristjón,“ hrópaði mamma. „Ertu nakinn?“ Daginn eftir flutti ég út.

 

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR?

Best er að fara á fætur þegar maður er búinn að sofa en ég vakna yfirleitt um 8.

 

ICELANDAIR EÐA WOW?

WOW, erfitt að svara þessu.

 

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU?

Samningaviðræður standa yfir.

 

ÍSRAEL EÐA PALESTÍNA?

Palestína.

 

DAGBLAÐ EÐA NET Á MORGNANA?

Alltaf net, eins og bergmál af minningu og gott að kíkja stundum í blöð yfir morgunkaffi. En hvernig læt ég. Alltaf blöð á þriðjudögum og föstudögum þegar DV kemur út.

 

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN?

Þegar ég var að ganga fram hjá styttunni af Jóni Sigurðssyni og mamma sagði að ef ég myndi klippa af mér neglurnar, setja þær í krukku og grafa þær undir styttunni af Jóni Sigurðssyni fengi ég allar mínar óskir uppfylltar. Tókst aldrei að fylla krukkuna en þetta er minningin sem ég fæ alltaf upp í hugann þegar minnst er á frelsishetjuna.

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts